Mikilvægt er að breytingum í starfsmannahaldi fyrirtækja og stofnana sé stýrt á sanngjarnan og gagnsæjan hátt í samræmi við réttindi starfsfólks samkvæmt lögum og kjarsamningum. Þá er mikilvægt að starfsfólki sé veittur fullnægjandi stuðningur og aðstoð á öllum stigum, einkum ef gripið er til uppsagna.
Stofnanakerfi ríkisins hefur tekið marháttuðum breytingum í áranna rás af ástæðum sem má rekja til stjórnmála, tækniframfara og/eða aðhaldskrafna. Skipulagsbreytingar hafa jafnan talsverð áhrif á réttindi og starfsöryggi starfsfólks, til dæmis ef stofnanir eru lagðar niður eða þær sameinaðar öðrum. Óvissa getur verið um stöðu verkefna og/eða flutning milli stofnana.
Starfsmannahald fyrirtækja á hinum almenna markaði er sömuleiðis háð síbreytilegum aðstæðum á markaði með vörur og þjónustu og hvers kyns tækninýjungum.
Stafræn tækni við vinnslu mála og þjónustu hefur leitt til endurmats starfa og endurmenntun hvarvetna á vinnumarkaðinum. Innleiðing gervigreindar mun án vafa valda straumhvörfum við framkvæmd starfa og verkaskiptingu. Lesa má um þróun mála á því sviði í stefnumótun ESB um gervigreind og samfélag og umfjöllun ETUC um áhrif stafrænnar tækni á vinnumarkaði.
Réttindi starfsfólks
Vinnuveitendum, bæði hjá hinu opinbera og á almennum vinnumarkaði, er almennt heimilt að gera ráðstafanir í starfsmannamálum til að laga starfsemi og þjónustu að breyttum aðstæðum og kröfum.
Þá er starfsfólki ríkisins skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er það tók við starfi, sbr. 19. gr. starfsmannalaga.
Starfsfólki fyrirtækja á almennum vinnumarkaði er sömuleiðis skylt að hlíta breytingum á sínum störfum eftir því sem nánar er kveðið í ráðningarsamningi og þeim kjarasamningi sem aðilar eru bundnir af.
Hins vegar ef uppi eru áform um meiriháttar breytingar á starfsmannahaldi, þ.m.t. vegna hópuppsagna eða þegar vinnuveitandi ráðgerir svokölluð aðilaskipti að fyrirtæki þá ber að veita starfsfólki upplýsingar um þau áform með góðum fyrirvara og hafa við samráð um áhrif fyrirhugaðra breytinga á stöðu þess og starfsöryggi.
BHM - aðstoð við félagsfólk
Aðildarfélög BHM styðja við bakið á félagsfólki sem stendur frammi fyrir breyttu starfsumhverfi í kjölfar skipulagsbreytinga. Starfsfólk er hvatt til að hafa samband við sitt aðildarfélag sem og trúnaðarmenn til að leita upplýsinga um réttarstöðu sína.