Skip to content

Upplýsingar og samráð

Fulltrúar starfsfólks og fyrirtæki vinni í anda samvinnu v , að teknu tilliti til hagsmuna beggja aðila.

Lög um upplýsingar og samráð tryggja rétt starfsfólks til upplýsinga um stöðu og þróun í rekstri og samráðs vegna ákvarðana sem líklegar eru til að hafa áhrif á starfsmannamál fyrirtækis. Unnið skal í anda samvinnu við tilhögun og framkvæmd upplýsingagjafar og samráðs, að teknu tilliti til hagsmuna beggja aðila.

Opinber fyrirtæki og einkafyrirtæki

Lögin gilda um fyrirtæki á markaði og stofnanir ríkis og sveitarfélaga sem stunda atvinnurekstur án tillits til þess hvort slíkt sé gert í hagnaðarskyni.

Opinberar stofnanir sem hafa með höndum stjórnsýsluverkefni falla utan við gildissvið laganna, enda geti slíkar stofnanir ekki talist stunda atvinnustarfsemi eða rekstur. Nánari afmörkun á hugtakinu stjórnsýsluverkefni kemur ekki fram í skýringum með lögunum.

Gildissvið laganna er bundið við vinnustaði þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 50 starfsmenn.

Samráð við fulltrúa starfsfólks

Upplýsingar sem eiga að liggja til grundvallar samráði vinnuveitanda við fulltrúa starfsfólks skulu snúast um:

  1. nýliðna þróun og horfur varðandi starfsemi og fjárhagsstöðu fyrirtækisins,
  2. stöðu, skipulag og horfur í atvinnumálum í fyrirtækinu og um allar ráðstafanir sem fyrirsjáanlegar eru, einkum ef atvinnuöryggi er ógnað,
  3. ákvarðanir sem líklegt er að leiði til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar eða á ráðningarsamningum starfsmanna, þar með taldar ákvarðanir sem eru byggðar á ákvæðum laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og hópuppsagnir.

Upplýsingarnar skulu veittar á þeim tíma, á þann hátt og þess efnis sem heppilegast er svo að fulltrúar starfsmanna geti hafið viðeigandi athugun og undirbúið samráð ef þess gerist þörf. Hið lögbundna samráð skal eiga sér stað á grundvelli framangreindra upplýsinga og álits fulltrúa starfsmanna sem þeir kunna að setja fram.

Á grundvelli upplýsinga um stöðu og horfur og fyrirhugaðar breytingar í starfsmannamálum skal fulltrúum starfsmanna gefast kostur á samráði með því að eiga fund með vinnuveitanda og fá viðbrögð frá honum við því áliti sem þeir kunna að setja fram. Samráð skal eiga sér stað á viðeigandi stjórnunarstigi fyrirtækisins og með viðeigandi fyrirsvari eftir því hvaða efni er til umræðu.

Í kjölfar viðræðna og skoðanaskipta skal vinnuveitandi geri grein fyrir ástæðum viðbragða sinna við þeim athugasemdum sem fram hafa komið af hálfu fulltrúa starfsmanna.

Ef ákvarðanir sem líklegt er að leiði til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar, þar með taldar ákvarðanir sem eru byggðar á ákvæðum laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og hópuppsagnir skal samráð fara fram með það að markmiði að ná samkomulagi um ákvarðanirnar.

Lög um upplýsingar og samráð byggja á tilskipun 2002/14/EB um almennan ramma um upplýsingamiðlun til launamanna og samráð.

Um lágmarksákvæði er að ræða. Heimilt er með kjarasamningum eða samningum milli vinnuveitanda og fulltrúa starfsmanna að kveða á um nánari tilhögun og framkvæmd án þess að víkið sé frá markmiðum tilskipunarinnar.