Ábyrgð sjóðsins er háð því skilyrði að kröfur starfsmanna hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur af skiptastjóra þrotabús. Skiptastjóri er skipaður af héraðsdómi að kröfu lánadrottna sem að jafnaði eru skattyfirvöld, lánastofnanir eða lífeyrissjóðir.
Stéttarfélög sjá um að lýsa kröfum félagsmanna sinna í þrotabú fyrirtækja, ef eftir því er leitað, og fylgja málum eftir gagnvart Ábyrgðasjóði launa. Meðferð mála getur tekið nokkra mánuði og því mikilvægt að fólk leiti strax eftir annarri vinnu.
Ábyrgðarsjóður launa greiðir eftirfarandi:
- Kröfu um vinnulaun fyrir síðustu þrjá starfsmánuði hans í þjónustu vinnuveitanda.
- Kröfu um bætur vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi.
- Kröfu um orlofslaun sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir gjaldþrotaúrskurð vinnuveitenda.
- Kröfu lífeyrissjóðs um lífeyrisiðgjöld.
- Kröfu launamanns um bætur vegna tjóns af völdum vinnuslyss og kröfu þess sem tilkall á til bóta vegna dauðsfalls launamanns, enda taki tryggingar vinnuveitanda ekki til bótakröfunnar.
Hámarksábyrgð vegna vangoldinna launa eða bóta vegna slita á ráðningarsamningi, sem falla í gjalddaga eftir 1. júlí 2018, er 633.000 kr. fyrir hvern mánuð.
Kröfur framkvæmdarstjóra og stjórnarmanna njóta ekki ábyrgðar. Sama gildir um eigendur að verulegum hlut í hinu gjaldþrota fyrirtæki. Þá er heimilt að hafna kröfum maka og annarra skyldmenna framkvæmdastjóra, stjórnarmanna eða eigenda ef sýnt er að kröfur þeirra eru óréttmætar með tilliti til þessara tengsla.
Hafi vinnuveitandi greitt upp í launakröfurnar fyrir gjaldþrotaúrskurð koma þær greiðslur til frádráttar. Á sama hátt koma greiddar atvinnuleysisbætur og atvinnutekjur á uppsagnarfresti til frádráttar kröfum um bætur vegna launamissis í uppsagnarfresti.
Ábyrgðasjóði launa ber skylda til að reikna staðgreiðslu skatta af launakröfum og kröfum um bætur vegna launamissis í uppsagnarfresti og skila til innheimtumanns í samræmi við lög um staðgreiðslu opinberra gjalda. Eigi launamaður ónýttan persónuafslátt á því ári sem afgreiðsla fer fram er hægt að nýta hann til frádráttar reiknaðri staðgreiðslu.
Ábyrgðasjóður ábyrgist greiðslu orlofslauna samkvæmt orlofslögum í þeim tilvikum sem vinnuveitandi hefur ekki staðið skil á greiðslu þeirra, án þess þó að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Ábyrgð sjóðsins nær til greiðslu orlofs sem áunnist hefur á síðustu 18 mánuðum. Launamenn sjálfir eða stéttarfélög í umboði þeirra geta sótt um greiðslu orlofslauna á þar til gerðu eyðublaði á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Standi ekkert í vegi fyrir greiðslu kröfunnar tekur að öllu jöfnu um fjórar til fimm vikur að fá hana afgreidda.
Nánari upplýsingar eru veittar á heimasíðu Vinnumálastofnunar.