Skip to content

Aksturspeningar

Ferðakostnaður ríkisstarfsmanna skiptist í akstursgjald vegna aksturs ríkisstarfsmanna á eigin bifreiðum á vegum ríkisstofnana og dagpeninga vegna ferða almennra ríkisstarfsmanna innanlands sem utan.

Um greiðslu ferðakostnaðar, dagpeninga o.fl. vegna ferða á vegum vinnuveitanda, innanlands sem utan, eru ákvæði í 5. kafla kjarasamnings aðildarfélaga BHM og ríkisins. Ákvörðun um upphæð dagpeninga er tekin af Ferðakostnaðarnefnd ríkisins sem í sæti eiga einn fulltrúi tilnefndur af BSRB, annar af BHM og tveir fulltrúar tilnefndir af fjármála- og efnahagsráðherra.

Ferðir innanlands

Kostnaður vegna ferðalaga innanlands á vegum vinnuveitanda greiðast eftir reikningi enda fylgi fullnægjandi frumgögn. Sama gildir ef hluti vinnudags er unninn svo langt frá föstum vinnustað að starfsmaður þarf að kaupa sér fæði utan heimilis eða fasts vinnustaðar.

Um uppgjör ferðakostnaðar, þar með talið akstursgjald, fer eftir sömu reglum og um uppgjör yfirvinnu.

Greiða skal gisti- og fæðiskostnað með dagpeningum, sé um það samkomulag eða ekki unnt að leggja fram reikninga.

Ferðir erlendis

Þegar starfsmaður fer erlendis í vinnuferð skal greiða ákveðnar uppbætur vegna óhægræðis sem af því leiðir, sbr. grein 5.5.1 í kjarasamningi.

Ferðakostnaður á ferðalögum erlendis greiðist með dagpeningum. Af dagpeningum á ferðalögum erlendis ber að greiða allan venjulegan ferðakostnað annan en fargjöld, svo sem kostnað vegna ferða að og frá flugvöllum, fæði, húsnæði, minni háttar risnu, hvers konar persónuleg útgjöld.

Sjá einnig reglur nr. 281/1988 um farangurstryggingar starfsmanna á ferðalögum á vegum ríkisins.

Skattaleg meðferð dagpeninga

Heimilt er að færa frádrátt á móti dagpeningum sem launamaður hefur fengið greidda frá launagreiðanda sínum þegar öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

  1. Dagpeningarnir voru greiddir vegna tilfallandi ferða á vegum launagreiðanda.
  2. Dagpeningarnir voru greiddir vegna ferða utan venjulegs vinnustaðar.
  3. Launamaðurinn hefur sannanlega greitt ferðatengdan kostnað samkvæmt reikningi og geti sýnt fram á það.
  4. Að fyrir liggi í bókhaldi launagreiðanda, sem og launamanns, gögn um tilefni ferðar og fjölda dvalardaga, fjárhæð ferðapeninga eða dagpeninga, svo og nafn og kennitala launamanns.

Sjá nánar um skattalega meðferð dagpeninga á heimasíðu skattsins.