Um greiðslu ferðakostnaðar, dagpeninga o.fl. vegna ferða á vegum vinnuveitanda, innanlands sem utan, eru ákvæði í 5. kafla kjarasamnings aðildarfélaga BHM og ríkisins. Ákvörðun um upphæð dagpeninga er tekin af Ferðakostnaðarnefnd ríkisins sem í sæti eiga einn fulltrúi tilnefndur af BSRB, annar af BHM og tveir fulltrúar tilnefndir af fjármála- og efnahagsráðherra. Um uppgjör ferðakostnaðar, þar með talið akstursgjald, fer eftir sömu reglum og um uppgjör yfirvinnu.
Akstursgjald ríkisstarfsmanna
Ferðakostnaðarnefnd hefur ákveðið akstursgjald í aksturssamningum ríkisstarfsmanna og ríkisstofnana, frá og með 1. maí 2023:
Almennt gjald
- Fyrstu 10.000 km, kr. 141,0 pr. km
- Frá 10.000 til 20.000 km, kr. 127,0 pr. km
- Umfram 20.000 km, kr. 113,0 pr. km
Við útreikning á sérstöku gjaldi skal bæta 15% álagi á almenna gjaldið og við útreikning á torfærugjaldi skal bæta 45% álagi á almenna gjaldið.
Akstursgjald ríkisstarfsmanna - auglýsing nr. 1/2023
Dagpeningar vegna ferða innanlands
Dagpeningar til greiðslu gisti- og fæðiskostnaðar ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands eru frá og með 1. júní 2024:
- Gisting og fæði í einn sólarhring kr. 54.400
- Gisting í einn sólarhring kr. 38.100
- Fæði hvern heilan dag, minnst 10 tíma ferðalag kr. 16.300
- Fæði í hálfan dag, minnst 6 tíma ferðalag kr. 8.150
Kostnaður vegna ferðalaga innanlands greiðist almennt eftir reikningi.
Ferðakostnaður innanlands er reiknaður út frá verðkönnun þar sem kannað er vænt verð á algengum gististöðum, á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Almennt er ferðakostnaði innanlands breytt tvisvar sinnum á ári, að vori og að hausti, til þess að endurspegla árstíðarsveiflu í kostnaði gistingar.
Auglýsing nr. 1/2024 um dagpeninga ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands.
Ferðir erlendis
Þegar starfsmaður fer erlendis í vinnuferð skal greiða ákveðnar uppbætur vegna óhægræðis sem af því leiðir, sbr. grein 5.5.1 í kjarasamningi.
Ferðakostnaður á ferðalögum erlendis greiðist með dagpeningum. Af dagpeningum á ferðalögum erlendis ber að greiða allan venjulegan ferðakostnað annan en fargjöld, svo sem kostnað vegna ferða að og frá flugvöllum, fæði, húsnæði, minni háttar risnu, hvers konar persónuleg útgjöld.
Dagpeningar erlendis - auglýsing nr. 3/2014.
Sjá einnig reglur nr. 281/1988 um farangurstryggingar starfsmanna á ferðalögum á vegum ríkisins.
Frádráttur vegna dagpeninga og ökutækjastyrks
Heimilt er að færa frádrátt á móti dagpeningum sem launamaður hefur fengið greidda frá launagreiðanda sínum þegar öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
- Dagpeningarnir voru greiddir vegna tilfallandi ferða á vegum launagreiðanda.
- Dagpeningarnir voru greiddir vegna ferða utan venjulegs vinnustaðar.
- Launamaðurinn hefur sannanlega greitt ferðatengdan kostnað samkvæmt reikningi og geti sýnt fram á það.
- Að fyrir liggi í bókhaldi launagreiðanda, sem og launamanns, gögn um tilefni ferðar og fjölda dvalardaga, fjárhæð ferðapeninga eða dagpeninga, svo og nafn og kennitala launamanns.
Sjá nánar um skattalega meðferð dagpeninga á heimasíðu skattsins og um frádrátt kostnaðar á móti ökutækjastyrk.