Laun félagsfólks í aðildarfélögum BHM sem starfa hjá Reykjavíkurborg og sveitarfélögum byggja annars vegar á miðlægum heildarkjarasamningi við viðsemjendur hvað varðar laun og almenn réttindi. Hins vegar fara laun félagsmanna eftir starfsmati sem raðar starfsmönnum í launaflokka eftir ábyrgð og álagi sem starfinu fylgir.
Reykjavíkurborg
Kjarasamningar aðildarfélaga BHM og Reykjavíkurborgar eru aðgengilegir á heimasíðu borgarinnar.
Samband íslenskra sveitarfélaga
Kjarasamningar aðildarfélaga BHM og sambandsins eru birtir á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Starfsmat
Starfsmatskerfi er notað til að meta með kerfisbundnum hætti þær kröfur sem störf gera til starfsmanna. Kerfið byggir á hlutlægum viðmiðum sem notuð eru til að bera saman störf í samræmi við þær kröfur sem í störfunum felast, óháð hæfni þeirra sem þau vinna.
Markmið starfsmats er að tryggja að starfsmönnum séu ákvörðuð laun með eins málefnalegum og hlutlægum aðferðum og hægt er og á að leiða til þess að störfum sé raðað þannig til grunnlauna að þau séu hin sömu fyrir störf sem metin eru jafnkrefjandi, óháð starfsstöðum, stéttarfélagi eða kyni.
Starfsmat er í stuttu máli:
- aðferð til að leggja samræmt mat á ólík störf
- aðferð til að gera forsendur launaákvarðana sýnilegri
- aðferð til þess að gera rökin á bak við launaákvarðanir skýrari
- leið til að ákvarða sömu laun fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf
Starfsmat er ekki:
- mat á persónulegri hæfni starfsmanna í starfi
- mat á árangri starfsmanna í starfi
- mat á frammistöðu starfsmanna í starfi
Verkefnastofa starfsmats sér um starfsmat fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg.
Nánari upplýsingar eru aðgengilegar á heimasíðunni www.starfsmat.is
Aðildarfélög BHM
Sérfræðingar á skrifstofum aðildarfélaga BHM veita upplýsingar um starfskjör félagsfólks samkvæmt kjarasamningi og þýðingu starfsmats fyrir launasetningu á einstökum vinnustöðum.