Laun félagsmanna aðildarfélaga BHM sem starfa hjá Reykjavíkurborg og sveitarfélögum byggja annars vegar á miðlægum heildarkjarasamningi við viðsemjendur hvað varðar laun og almenn réttindi. Hins vegar fara laun félagsmanna eftir starfsmati sem raðar starfsmönnum í launaflokka eftir ábyrgð og álagi sem starfinu fylgir.
Sérstakt starfsmatskerfi er notað til að meta með kerfisbundnum hætti þær kröfur sem störf gera til starfsmanna. Kerfið byggir á hlutlægum viðmiðum sem notuð eru til að bera saman störf í samræmi við þær kröfur sem í störfunum felast, óháð hæfni þeirra sem þau vinna.
Markmið starfsmats er að tryggja að starfsmönnum séu ákvörðuð laun með eins málefnalegum og hlutlægum aðferðum og hægt er og á að leiða til þess að störfum sé raðað þannig til grunnlauna að þau séu hin sömu fyrir störf sem metin eru jafnkrefjandi, óháð starfsstöðum, stéttarfélagi eða kyni.
Starfsmat metur aðeins grunnkröfur til starfa en ekki einstaklingsbundna hæfni starfsmanna, þ.e. lagt er mat á það hvaða kröfur eru gerðar til starfsmanns í tilteknu starfi. Ekki er lagt mat á einstaklingsbundna hæfni jafnvel þó umfram hæfni eða hæfileikar hafi bein eða óbein áhrif á frammistöðu í starfi.
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni www.starfsmat.is