Skip to content

Fyrirtæki og stofnanir á almennum vinnumarkaði

Á almennum vinnumarkaði var fyrst gerður aðalkjarasamningur milli Samtaka atvinnulífsins (SA) og 20 aðildarfélaga BHM árið 2008.

Fyrir þann tíma var yfirleitt samið um réttindi og kjör félagsmanna á almennum vinnumarkaði í einstaklingsbundnum ráðningarsamningum.Þá hafa nokkur aðildarfélög BHM gert samninga við einstök fyrirtæki á almennum vinnumarkaði, s.s. Orkuveitu Reykjavíkur, RARIK ohf. og RÚV ohf.

Í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga BHM er ekki samið um tiltekin laun, hvorki tiltekna launataxta fyrir dagvinnu eða mánaðarlaun. Launakjör háskólamanna er því ekki ákveðin með kjarasamningi heldur ráðast af því sem um semst á markaði. Þess í stað segir að um ákvörðun launa og annarra starfskjara samsetningu launa, grundvöll álags- og viðbótargreiðslna o.þ.h. fari samkvæmt ákvæðum ráðningarsamnings, sbr. grein 1.1. í framangreindum samningi.

Heimilt skal að semja um föst mánaðarlaun starfsmanns þar sem tilgreind eru heildarlaun starfsmanns. Með sama hætti er heimilt að semja um fasta þóknun fyrir yfirvinnu sem og annað vinnuframlag starfsmanns sem unnið er utan dagvinnutímabils.

Sama á við um þóknun fyrir aðrar skyldur sem starfsmaður undirgengst í ráðningarsamningi. Við ákvörðun launa skulu laun þó endurspegla vinnuframlag, hæfni, menntun og færni viðkomandi starfsmanns svo og innihald starfsins og þá ábyrgð sem starfinu fylgir.

Þegar samið er um laun geta vinnuveitandi og starfsmaður m.a. byggt á launakönnunum sem og skipan launamála hjá viðkomandi vinnuveitanda. Tekið er fram að gætt skuli ákvæða jafnréttislaga við launaákvarðanir.