Fyr­ir­tæki og stofn­an­ir á al­menn­um vinnu­mark­aði

Á almennum vinnumarkaði var fyrst gerður aðalkjarasamningur milli Samtaka atvinnulífsins (SA) og 20 aðildarfélaga BHM árið 2008.

Núgildandi kjarasamningur gildir frá 30. júní 2021. Hann er ótímabundinn, en með fyrirvara um endurskoðun ef gerðar eru almennar breytingar á réttindum launafólks á almennum vinnumarkaði.

Markaðslaun

Í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga BHM er ekki samið um tiltekin laun, hvorki tiltekna launataxta fyrir dagvinnu eða mánaðarlaun. Launakjör háskólamanna er því ekki ákveðin með kjarasamningi heldur ráðast af því sem um semst á markaði. Þess í stað segir að um ákvörðun launa og annarra starfskjara samsetningu launa, grundvöll álags- og viðbótargreiðslna o.þ.h. fari samkvæmt ákvæðum ráðningarsamnings, sbr. grein 1.1. í framangreindum samningi.

Heimilt skal að semja um föst mánaðarlaun starfsmanns þar sem tilgreind eru heildarlaun starfsmanns. Með sama hætti er heimilt að semja um fasta þóknun fyrir yfirvinnu sem og annað vinnuframlag starfsmanns sem unnið er utan dagvinnutímabils.

Sama á við um þóknun fyrir aðrar skyldur sem starfsmaður undirgengst í ráðningarsamningi. Við ákvörðun launa skulu laun þó endurspegla vinnuframlag, hæfni, menntun og færni viðkomandi starfsmanns svo og innihald starfsins og þá ábyrgð sem starfinu fylgir.

Þegar samið er um laun geta vinnuveitandi og starfsmaður m.a. byggt á launakönnunum sem og skipan launamála hjá viðkomandi vinnuveitanda.

Jafnréttislög

Við launaákvarðanir á almennum vinnumarkaði skal gætt ákvæða jafnréttislaga sem og laga um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Launaviðtal

Starfsmaður á rétt á viðtali við yfirmann einu sinni á ári um störf sín, þ.m.t. frammistöðu og markmið og hugsanlegar breytingar á starfskjörum. Vinnuveitandi getur einnig haft frumkvæði að árlegum viðtölum við starfsmenn og ákveður hvenær ársins þau eru tekin. Niðurstaða viðtals skal liggja fyrir innan mánaðar.

Sérsamningar

Nokkur aðildarfélög BHM hafa gert sérsamninga við einstök fyrirtæki á almennum vinnumarkaði, s.s. Orkuveitu Reykjavíkur, RARIK ohf. og RÚV ohf.

Opinber hlutafélög (OHF) eru ekki ríkisstofnanir í skilningi laga og heyrir starfsfólk þeirra því ekki undir lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Um starfskjör þeirra fer samkvæmt ráðningarsamningi og gildandi kjarasamningi hverju sinni, sem og almennum reglum íslensks vinnuréttar.

BHM aðildarfélög

Félagsfólki er ráðlagt að hafa samband við sitt aðildarfélag innan BHM til að fá nánari upplýsingar um laun og önnur starfskjör í sinni starfsgrein.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt