Skip to content

Atvinnuleit innan EES

Réttur fólks til frjálsrar farar á innri markaði Evrópu er ein af grundvallarreglum í samstarfi EES-ríkjanna.

Réttur fólks til frjálsrar farar samkvæmt ákvæðum EES-samningsins felur í sér afnám hvers kyns mismununar eftir þjóðerni að því er varðar ráðningu, laun og önnur starfsskilyrði. Launafólk á ennfremur rétt á því að samþykkja atvinnutilboð, ferðast frjálst innan lands, dvelja þar í atvinnuskyni og búa þar áfram að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Um þessi réttindi er nánar fjallað í tilskipun 2004/38/EB um rétt EES-borgara og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna og reglugerð (ESB) nr. 492/2011 um frjálsa för launafólks, sbr. lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins nr. 105/2014. Þeim til stuðnings eru reglur um viðurkenningu starfsréttinda, réttur til þjónustu opinberra vinnumiðlana og greiðsla atvinnuleysisbóta við atvinnuleit í öðru EES-ríki.

Þeir sem eru á atvinnuleysisbótum hér á landi eiga rétt á því að taka þær greiðslur með sér við atvinnuleit í öðrum aðildarríkjum í allt að þrjá mánuði. Skilyrði er viðkomandi hafi verið að fullu atvinnulaus hér á landi, verið á atvinnuleysisbótum samfellt í fjórar vikur fyrir brottför og ekki hafnað atvinnutilboði. Vinnumálastofnun gefur út vottorð U2 til staðfestingar á þessum rétti. Eftir 6 mánuði við atvinnuleit í öðru ríki verður að skrá sig hjá þar til bærum yfirvöldum.

Vinnumálastofnun veitir nánari upplýsingar um atvinnuleit erlendis og greiðslu atvinnuleysisbóta erlendis.

EURES (European Employment Services) er samstarfsvettvangur opinberra vinnumiðlana í aðildarríkjum EES-samningsins. Markmið EURES er að stuðla að auknum hreyfanleika vinnandi fólks á milli landa og bregðast við staðbundnum sveiflum á vinnumarkaði.

Vefgátt EURES www.eures.europa.eu er aðgengileg á 26 tungumálum, þar með talið íslensku.