Chat with us, powered by LiveChat
  • bhm02

Orlof

Lengd orlofs og ávinnsla

Orlofsréttur starfsmanna er bæði tryggður með sérstökum lögum og kjarasamningum. Sú meginregla gildir að lögin rýra ekki víðtækari og hagkvæmari orlofsrétt samkvæmt öðrum lögum, samningum eða venjum. Það felur í sér að kveði t.d. kjarasamningur á um betri orlofsrétt en lögin kveða á um þá gildir kjarasamningurinn. Samningur sem kveður á um lakari rétt en lögin er ógildur.

Orlofsréttur skiptist í tvennt. Annars vegar er um að ræða rétt starfsmanns til að taka sér leyfi frá störfum og hins vegar rétt til launagreiðslna á meðan orlofinu stendur. Ávinnslutímabil orlofs er frá 1. maí til 30. apríl og á þessu tímabili ávinnur starfsmaður sér rétt til orlofs og orlofslauna á næsta orlofsári.  

  • Til orlofsdaga teljast aðeins virkir dagar. 
  • Lágmarksorlof samkvæmt lögum eru tveir vinnudagar fyrir hvern unninn mánuð á ávinnslutímabili orlofs.  
  • Í kjarasamningum er kveðið á um víðtækari rétt til orlofs.
  • Hjá einstaka aðildarfélögum BHM getur orlofskafli kjarasamnings kveðið á um annað en að neðan greinir.

Orlofsréttur hjá ríki og sveitarfélögum

  • Orlof skal vera 30 dagar (240 stundir) miðað við fullt starf (frá 1. maí 2020).
  • Ávinnsla orlofs skal vera hlutfallsleg miðað við starfshlutfall og starfstíma starfsmanns. 
Ath. að frá og með 1. júlí 2019 varð óheimilt að hafa ávinnsluna mismunandi eftir aldri starfsmanna, sbr. lög um jafna meðferð á vinnnumarkaði.

Ávinnslutímabil orlofs

Orlofsárið er frá 1. maí til 30. apríl (ávinnslutímabil orlofs).  Á þessu tímabili ávinnur starfsmaðurinn sér rétt til orlofs og orlofslauna á næsta orlofsári. Sumarorlofstímabil er frá 1. maí til 15. september nema hjá starfsmönnum sveitarfélaga þar sem tímabilið er frá 15. maí til 30. september.

Lenging orlofs utan sumarorlofstímabils

Starfsmenn á opinberum vinnumarkaði eiga rétt á að fá allt að 30 daga orlof, þar af 15 daga samfellda, á sumarorlofstímabilinu, enda verði því við komið vegna starfa stofnunar.  

Ef starfsmaður tekur hluta orlofs eftir að sumarorlofstímabili lýkur, að skriflegri beiðni vinnuveitanda, lengist orlofsrétturinn um fjórðung (25%). 

Veikindi í orlofi

Veikist starfsmaður í orlofi, telst sá tími sem veikindum nemur ekki til orlofs enda sanni starfsmaður með læknisvottorði svo fljótt sem auðið er að hann geti ekki notið orlofsins.

Komist starfsmaður ekki í orlof vegna veikinda á hann rétt á að taka orlofið síðar, eftir atvikum utan sumarorlofstímabils, og skal orlofið ákveðið í samráði við atvinnurekanda.

Orlof á uppsagnarfresti

Vinnuveitandi getur ekki ákveðið einhliða orlofstöku á uppsagnarfresti. M.ö.o. þarf að afla samþykkis starfsmanns ef ætlunin er að fella orlofstöku hans inn í uppsagnarfrestinn.   Samþykki starfsmaður ekki slíka tilhögun á hann rétt á að fá orlofið gert upp við starfslok. Geri starfsmaður kröfu um orlofstöku á uppsagnarfresti og vinnuveitandi fellst á þá kröfu þannig að ekki komi til lengingar uppsagnarfrests er æskilegt að ganga frá slíku með skriflegum hætti.

Ávinnsla orlofs í fæðingarorlofi

Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Lögbundið fæðingarorlof skerðir ekki rétt til orlofslauna hjá opinberum starfsmönnum. 

Ítarefni: 

Orlofsréttur á almennum vinnumarkaði

 Starfsaldur  Orlofsdagar  Vinnuskyldustundir
 lágmarksorlof  24  192
 5 ár í starfsgrein  25  200
 5 ár hjá sama atvinnurekanda  27  216
 10 ár hjá sama atvinnurekanda  30  240

Áunninn réttur vegna starfa í sama fyrirtæki endurnýjast eftir þriggja ára starf hjá nýju fyrirtæki, enda hafi rétturinn verið sannreyndur.

Ávinnslutímabil orlofs

Ávinnslutímabil orlofs miðast við orlofsárið sem er frá 1. maí til 30. apríl. Á þessu tímabili ávinnur starfsmaðurinn sér rétt til orlofs og orlofslauna á næsta orlofsári.

Lenging orlofs

Samkvæmt kjarasamningi BHM og SA ber að veita a.m.k. fjórar vikur (20 virka daga) á timabilinu 2. maí til 15. september.  Þeir sem samkvæmt ósk atvinnurekanda fá ekki 20 orlofsdaga á sumarorlofstímabilinu eiga rétt á 25% álagi á það sem vantar á 20 dagana.

Veikindi í orlofi

Veikist starfsmaður í orlofi þannig að hann geti ekki notið orlofs á viðkomandi rétt á uppbótarorlofi jafnlangan tíma og veikindin vöruðu. Við slíkar aðstæður skal félagsmaður á fyrsta degi tilkynna það atvinnurekanda og ávallt færa sönnur á veikindi sín með læknisvottorði. Séu veikindin ekki tilkynnt strax kann orlofslengingin að falla niður. Á sumum vinnustöðum eru sérstakar reglur um hvert og hvernig tilkynna eigi veikindi, en ef engar slíkar reglur eru til staðar skal tilkynna næsta yfirmanni. 

Orlofstaka starfsmanns frestast og hann fær greidd laun í veikindum í samræmi við áunninn veikindarétt. Uppbótarorlof skal eftir því sem kostur er veitt á þeim tíma sem starfsmaður óskar á tímabilinu 2. maí til 15. september, nema sérstaklega standi á.

Orlof á uppsagnarfresti

Atvinnurekandi getur ekki ákveðið einhliða orlofstöku á uppsagnarfresti. M.ö.o. þarf að afla samþykkis starfsmanns ef ætlunin er að fella orlofstöku hans inn í uppsagnarfrestinn. Samþykki starfsmaður ekki slíka tilhögun á hann rétt á að fá orlofið gert upp við starfslok. Geri starfsmaður kröfu um orlofstöku á uppsagnarfresti og vinnuveitandi fellst á þá kröfu þannig að ekki komi til lengingar uppsagnarfrests er æskilegt að ganga frá slíku með skriflegum hætti.

Ávinnsla orlofs í fæðingarorlofi

Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til frítöku, veikindaréttar, starfsaldurshækkana, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta, en ekki til greiðslu orlofslauna.

Ítarefni: