Skip to content

Ríki og sveitarfélög

Orlofsréttur starfsmanns, sem er í fullu starfi frá 1. maí til 30. apríl árið eftir, er 240 klst. eða að jafnaði 30 dagar. 

Til orlofsdaga teljast aðeins virkir dagar. Orlofslaun eru ýmist laus til útborgunar við upphaf orlofstímabils eða greidd út á meðan orlofi stendur, þá á sama tíma og laun eru venjulega greidd. Hið síðarnefnda er algengt fyrirkomulag hjá mánaðarlaunafólki.

Orlofsréttur reiknast hlutfallega ef um skemmri starfstíma eða lægra starfshlutfall er að ræða.

Orlofsárið er frá 1. maí til 30. apríl (ávinnslutímabil orlofs). Á þessu tímabili ávinnur starfsmaðurinn sér rétt til orlofs og orlofslauna á næsta orlofsári. Sumarorlofstímabil er frá 1. maí til 15. september nema hjá starfsmönnum sveitarfélaga þar sem tímabilið er frá 15. maí til 30. september. Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum.

Frá og með 1. júlí 2019 hefur verið óheimilt að hafa ávinnslu orlofsréttinda mismunandi eftir aldri starfsmanna, sbr. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Starfsmenn á opinberum vinnumarkaði eiga rétt á að fá allt að 30 daga orlof, þar af 15 daga samfellda, á sumarorlofstímabilinu, enda verði því við komið vegna starfa stofnunar. Ef starfsmaður tekur hluta orlofs eftir að sumarorlofstímabili lýkur, að skriflegri beiðni vinnuveitanda, lengist orlofsrétturinn um fjórðung (25%).