Chat with us, powered by LiveChat

Starfslok vegna aldurs

Almennt er miðað við að starfsmenn láti af störfum við eftirlaunaaldur

Starfsmenn hjá hinu opinbera

Að jafnaði er gert ráð fyrir að ríkisstarfsmanni sé sagt upp starfi frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri. Uppsögn ber að miða við næstu mánaðamót eftir að starfsmaður nær 70 ára aldri.

Dæmi: Starfsmaður hefur þriggja mánaða uppsagnarfrest. Hann verður 70 ára þann 5. maí. Starfslok hans ættu því að verða á mánaðamótum maí - júní. Til þess að tryggja starfslok hans á þessum tíma þarf að segja honum upp störfum í febrúar þannig að uppsagnarfresturinn verði liðinn í lok maímánaðar, þ.e. þrír heilir almanaksmánuðir (mars, apríl og maí).

Sambærileg ákvæði eru í kjarasamningum starfsmanna Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga en án ákvæðis um sérstaka uppsögn líkt og hjá ríki. Gert er ráð fyrir að starfsmaður sveitarfélags láti af starfi sínu næstu mánaðamót eftir að hann nái 70 ára aldri án sérstakrar uppsagnar. 

Almennur vinnumarkaður

Almennt er miðað við að á almennum vinnumarkaði starfi fólk fram að eftirlaunaaldri, sem getur verið misjafn eftir ákvæðum í ráðningarsamningi, mannauðsstefnu fyrirtækis eða öðru samkomulagi við viðkomandi starfsmann. Algengt er að fólk hefji töku lífeyris um 67 ára aldur en sumir starfa þó lengur og aðrir skemur. 

Á almennum vinnumakraði verða ekki starfslok sjálfkrafa þegar tilteknum lífaldri er náð. Þannig þarf einnig að senda formlega tilkynningu um starfslok með sama fyrirvara og gildir um uppsagnir. 

Um lengd uppsagnarfrests, vegna aldurs, gilda sömu ákvæði og um uppsögn af öðrum ástæðum.