Skip to content

Sveitarfélög

Í kjarasamningum aðildarfélaga BHM við Samband íslenska sveitarfélaga er kveðið á um þá meginreglu að óheimilt er að segja starfsmanni upp án málefnalegra ástæðna, sbr. grein 11.1.6.1.

Þegar starfsmaður er ráðinn ótímabundið skal uppsagnarfrestur vera þrír mánuðir að loknum reynslutíma, nema um lengri uppsagnarfrest sé sérstaklega samið. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur á reynslutíma skal vera einn mánuður. Sömu reglur um uppsagnarfresti gilda um tímabundnar ráðningar.

Tilefni uppsagnar rakið til brots starfsmanns

Skrifleg áminning er að jafnaði skilyrði þess að starfsmanni verði sagt upp störfum ef tilefni uppsagnar er rakið til hans, eftir því sem kveðið er á um í kjarasamningi, sbr. sbr. 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Í kjarasamningum aðildarfélaga BHM við Samband íslenska sveitarfélaga er svohljóðandi ákvæði í grein 11.1.6.2 þar sem kveðið er á um brot starfsmanns á starfskyldum, andmælarétt og áminningar:

„Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða afhafnir í því þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal vinnuveitandi veita honum skriflega áminningu.“

Vinnuveitandi skal gefa starfsmanni kost á að tjá sig um meintar ávirðingar áður en ákvörðun um áminningu er tekin. Starfsmaður á rétt á því að tjá sig um tilefni áminningar í viðurvist trúnaðarmanns. Vinnuveitandi skal kynna honum þann rétt.

Áminning skal vera skrifleg. Í áminningu skal tilgreina tilefni hennar og þá afleiðingu að bæti starfsmaður ekki ráð sitt verði honum sagt upp. Ber að veita starfsmanni tíma og tækifæri til þess að bæta ráð sitt áður en gripið er til uppsagnar.

Hagræðing í rekstri stofnunar

Ekki er skylt að veita starfsmanni áminningu og kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi, ef tilefni uppsagnar er ekki rakið til starfsmannsins sjálfs, s.s. vegna hagræðingar í rekstri stofnunar eða fyrirtækis, sbr. grein 11.1.6.2.

Ekki er þó skylt að veita áminningu ef uppsögn má rekja til ástæðna sem raktar eru í 3.-5. mgr. gr. 11.1.6.1. í kjarasamningi BHM og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Rökstuðningur

Starfsmenn sveitarfélaga hafa samkvæmt stjórnsýslulögum, líkt og opinberir starfsmenn, rétt til að krefjast skriflegs rökstuðnings fyrir uppsögn, sbr. 21. og 22. gr. gr. stjórnsýslulaga.

Uppsagnarfrestur

Uppsögn þarf að vera skrifleg og miðast við mánaðamót. Lengd uppsagnarfrests miðast við starfstíma og er 3 mánuðir fyrir félagsmenn sem eru ráðnir ótímabundið (með fastráðningu) og lengist eftir 10 ár og við ákveðinn lífaldur. Starfsmaður getur sagt upp starfi sínu með 3ja mánaða fyrirvara.

Uppsagnarfrestur eftir starfstíma:

  • Ótímabundin ráðning/fastráðning — 3 mánuðir
  • Eftir 10 ára samfellt starf og starfsmaður orðinn 55 ára — 4 mánuðir
  • Eftir 10 ára samfellt starf og starfsmaður orðinn 60 ára — 5 mánuðir
  • Eftir 10 ára samfellt starf og starfsmaður orðinn 63 ára — 6 mánuðir

Sérákvæði um uppsagnarvernd

Sjá einnig sérkvæði um uppsagnarvernd sem gilda jafnt um opinbera starfsmenn og starfsfólk á almennum vinnumarkaði.