Skip to content

Almennur vinnumarkaður

Á hinum almenna vinnumarkaði er meginreglan sú að vinnuveitanda er ekki skylt að tilgreina ástæðu uppsagnar eða rökstyðja hana með vísan til málefnalegra sjónarmiða.

Þetta er andstætt við það sem gildir um opinbera starfsmanna sem eiga rétt á fá skriflegan rökstuðning fyrir uppsögn samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, kjarasamningum og stjórnsýslulögum.

Samkvæmt kjarasamningi BHM og Samtaka atvinnulífsins (SA) á starfsmaður hins vegar rétt á viðtali um starfslok sín og ástæður uppsagnar.

Hvenær tekur uppsögn gildi?

Uppsögn skal vera skrifleg og miðast við mánaðamót og skal hafa borist með sannarlegum hætti. Þannig tekur uppsögn gildi næstu mánaðamót eftir að uppsögn er móttekin (dæmi: uppsagnarbréf er afhent 20 febrúar. Viðkomandi á þriggja mánaða uppsagnarfrest og eru því starfslok 31 maí sama ár, þ.e. mars, apríl, maí).

Uppsagnarfrestur

Uppsögn þarf að vera skrifleg og miðast við mánaðamót. Í ráðningarsamningi getur lengri uppsagnarfrestur verið tilgreindur.

Samkvæmt kjarasamningi BHM við SA er uppsagnarfrestur lengri eftir 10 ára starf hjá sama fyrirtæki ef viðkomandi hefur náð ákveðnum lífaldri, sjá töflu. Starfsmaður getur hins vegar sagt upp starfi sínu með 3ja mánaða fyrirvara.

Uppsagnarfrestur eftir starfstíma:

  • Á fyrstu 3 mánuðum — 1 vika
  • Eftir 3 mánaða starf — 1 mánuður
  • Eftir 6 mánaða starf — 3 mánuðir
  • Eftir 10 ára samfellt starf og starfsmaður orðinn 55 ára — 4 mánuðir
  • Eftir 10 ára samfellt starf og starfsmaður orðinn 60 ára — 5 mánuðir
  • Eftir 10 ára samfellt starf og starfsmaður orðinn 63 ára — 6 mánuðir

Viðtal um ástæður uppsagnar

Starfsmaður á rétt viðtali við atvinnurekanda um starfslok sín og ástæður uppsagnar. Beiðni um viðtal skal sett fram um innan 4 sólarhringa frá uppsögn. Fallist atvinnurekandi á þessa ósk starfsmannsins skal viðtal eiga sér stað innan 4 sólarhringa. Ef atvinnurekandi fellst ekki á viðtal eða ef starfsmaður óskar þess, að loknu viðtali, þá skal atvinnurekandi skýra ástæður uppsagnar skriflega. Fallist atvinnurekandi ekki á að veita skriflegar skýringar á starfsmaður rétt á því að hann gefi skýringar á uppsögninni á fundi með starfsmanninum og trúnaðarmanni hans eða öðrum fulltrúa stéttarfélags síns.