Skip to content

Heilsan í vinnunni

Starfsfólk á rétt á heilbrigðum og öruggum vinnuaðstæðum.

Öflugt vinnuverndarstarf sem skilar árangri krefst þekkingar og ábyrgðar af hálfu vinnuveitanda, samvinnu við starfsfólk, áhættumats og forvarna.

Heilbrigt vinnuumhverfi, gott skipulag vinnutíma og mönnun starfa í samræmi við álag, skilar sér í meiri starfsánægju og betra vinnuframlagi. Öflugt vinnuverndarstarf kemur bæði starfsfólki og vinnuveitendum til góða.

Óhóflegur vinnutími og álag vegna ástands mönnunar, áreitni og slæm vinnustaðamenning veldur á hinn bóginn streitu og vanlíðun meðal starfsfólks. Ef ekki er brugðist við slíkri þróun aukast fjarvistir vegna veikinda og hætta er á kulnun í starfi.

Árangursríkt vinnuverndarstarf byggir á góðu jafnvægi atvinnuþátttöku og einkalífs. Alvarleg áföll sem og ábyrgð á umönnun nákominna vegna veikinda eða fötlunar samhliða fullu starfi geta verið mjög streituvaldandi. Slíkar aðstæður kalla á viðbrögð í samstarfi vinnuveitanda og starfsfólks. Ýmsar ráðstafanir koma til greina, þ.m.t. endurskoðun verkefna og ábyrgðar og sveigjanleiki í vinnutilhögun. Leyfi frá störfum vegna umönnunar nákominna og sorgarleyfi taka einnig mið af þessu.