Skip to content

Upplýsingar og samráð

Fræðsla og þátttaka starfsfólks er lykillinn að árangursríku vinnuverndarstarfi.

Starfsfólk á rétt til upplýsinga og samráðs þar sem byggt er á rétti þess til að taka þátt í ákvörðunum sem hafa áhrif á vinnuumhverfi þess, heilsu og vellíðan.

Í fyrirtækjum þar sem starfsmenn eru tíu eða fleiri skal atvinnurekandi tilnefna af sinni hálfu öryggisvörð og starfsmenn skulu kjósa öryggistrúnaðarmann úr sínum hópi. Í fyrirtækjum þar sem starfsmenn eru 50 eða fleiri skal stofna öryggisnefnd, sbr. II. kafla laga um aðbúnað og hollustuhætti. Sjá einnig II. kafla reglugerðar um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs.

Öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn taka þátt í gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað og fylgjast með því hvernig henni er framfylgt. Í því felst þátttaka í gerð áhættumats og áætlunar um heilsuvernd þar sem meðal annars kemur fram áætlun um forvarnir.

Öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn eiga rétt á viðeigandi fræðslu og þjálfun með því að sækja námskeið varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem gera þeim kleift að afla sér grunnþekkingar á því sviði.