Samvinna vinnuveitanda og starfsfólks

Öflugt og árangursríkt vinnuverndarstarf kallar á þátttöku starfsfólks. Skipulag þeirrar samvinnu ræðst m.a. af fjölda starfsmanna á vinnustað.

Í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eru gerðar misjafnar kröfur um samskipti stjórnenda og starfsfólks eftir fjölda þeirra sem starfa á vinnustaðnum á ársgrundvelli, sbr. II. kafla þeirra laga og II. kafla reglugerðar um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs.

Stærð vinnustaða

  • Á vinnustöðum þar sem starfa færri en tíu starfsmenn skal atvinnurekandi stuðla að góðum aðbúnaði og öryggi á vinnustað í nánu samstarfi við starfsfólk sitt.
  • Á vinnustað þar sem starfsmenn eru á millli tíu og 49 kýs starfsfólk einn úr sínum hópi sem öryggistrúnaðarmann og atvinnurekandi tilnefnir einn fulltrúa af sinni hálfu sem öryggisvörð ef hann getur ekki sjálfur sinnt því hlutverki.
  • Í fyrirtækjum þar sem starfsmenn eru 50 eða fleiri skal stofna öryggisnefnd. Starfsmenn kjósa úr sínum hópi tvo fulltrúa og atvinnurekandi tilnefnir að lágmarki tvo öryggisverði fyrir sína hönd í nefndina.

Kosning og tilnefning fulltrúa í öryggisnefnd skal, eftir því sem kostur er, miðast við að fulltrúarnir hafi í daglegum störfum sínum yfirsýn yfir sem mestan hluta starfseminnar og/eða að þeir séu til staðar eins mikinn hluta starfstímans og kostur er.

Öryggisnefnd skipuleggur aðgerðir varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi innan fyrirtækisins, annast fræðslu starfsmanna og hefur eftirlit með því að ráðstafanir er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi komi að tilætluðum notum.

Helstu verkefni öryggistrúnaðarmanna og öryggisvarða.

Öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn í öryggisnefndum taka þátt í gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, og fylgjast með því hvernig henni er framfylgt. Í því felst þátttaka í gerð áhættumats og áætlunar um heilsuvernd þar sem meðal annars kemur fram áætlun um forvarnir, sbr. V. kafla reglugerðar um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs.

Þar sem öryggisnefnd er ekki til staðar taka öryggistrúnaðarmaður og öryggisvörður, eða félagslegur trúnaðarmaður starfsmanna, þátt í gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað og fylgjast með hvernig henni er framfylgt.

Öryggisvörðum og öryggistrúnaðarmönnum ber að fara í eftirlitsferðir um vinnustaðinn svo oft sem þurfa þykir og aðgæta m.a. að:

  • vélar og tæknibúnaður, hættuleg efni og starfsaðferðir stofni ekki lífi og heilsu starfsmanna í hættu,
  • ekki viðgangist ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi á vinnustaðnum,
  • starfsmönnum sé kynnt sú áhætta sem er á vinnustaðnum að því er varðar öryggi þeirra og heilsu,
  • skráningu vinnuslysa, óhappa og atvinnusjúkdóma sé sinnt, og
  • starfsmenn fái nauðsynlega fræðslu á sviði vinnuverndar.

Öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum skal skýrt frá öllum vinnuslysum, óhöppum og atvinnusjúkdómum sem eiga sér stað í fyrirtækinu til að auðvelda þeim að sinna skyldum sínum.

Enn fremur skulu þeim kynntar mælingar og rannsóknir á hollustuháttum og öryggi og skal auk þess skýra þeim frá bilunum eða aðstæðum sem upp koma og þýðingu geta haft fyrir aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustað. Þá skal kynna þeim ábendingar og fyrirmæli Vinnueftirlits ríkisins sem varða fyrirtækið.

Öryggistrúnaðarmenn gegna einnig ákveðnu hlutverk við meðferð mála vegna ábendinga/kvartana um einelti eða kynferðislega áreitni á vinnustað (EKKO), sbr. 7. og 9. gr. reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Kosning öryggistrúnaðarmanns

Félagslegir trúnaðarmenn starfsmanna eða trúnaðarmenn viðkomandi stéttarfélaga sjá um undirbúning og framkvæmd kosningar öryggistrúnaðarmanna.

Kosning öryggistrúnaðarmanna skal fara fram með skriflegri atkvæðagreiðslu, sem stendur a.m.k. einn vinnudag eða á starfsmannafundi er hefur verið boðaður með a.m.k. tveggja sólarhringa fyrirvara, þar sem öllum starfsmönnum, sem kosningarétt hafa, er gefinn kostur á þátttöku.

Kosning öryggistrúnaðarmanna skal að jafnaði vera til tveggja ára í senn.

Atvinnurekandi skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um þá aðila sem tilnefndir eru sem öryggisverðir og kosnir eru sem öryggistrúnaðarmenn. Þeir sem undirbúa kosningu öryggistrúnaðarmanna skulu tilkynna viðkomandi stéttarfélögum um sömu aðila.

Tími og námskeið

Forstöðumanni stofnanir eða fyrirtækis ber að sjá til þess að öryggistrúnarmenn og öryggisverðir fái hæfilegan tíma til þess að sinna þeim störfum vel.

Árangur í vinnuvernd kallar einnig á þjálfun og fræðslu sem tekur mið af vinnuumhverfi og aðstæðum starfsfólks. Fulltrúar starfsmanna eiga því rétt á viðeigandi fræðslu með því að sækja námskeið á kostnað vinnuveitanda sem gerir þeim kleift að afla sér grunnþekkingar á sviði vinnuverndar.

Réttarvernd

Öryggistrúnaðarmenn njóta sömu verndar og félagslega kjörnir trúnaðarmenn samkvæmt 11. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt