Kjarasamningar fjalla ekki aðeins um laun og álagsgreiðslur fyrir dagvinnu, yfirvinnu og vaktavinnu, heldur einnig um daglegan og vikulegan lágmarkshvíldartíma starfsfólks, sbr. grein 2.4 í kjarasamningi aðildarfélaga BHM og ákvæði um það efní í IX. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum
Reglur um það efni byggja á tilskipun 2003/88/EB um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma.
Í meginatriðum tryggir tilskipunin eftirfarandi lágmarksréttindi:
- Daglegur hvíldartími - a.m.k. 11. klst. samfelld hvíld
- Vikulegur hvíldartími - a.m.k. einn frídagur
- Vikulegur hámarksvinnutími - ekki umfram 48 klst. að meðaltali
Virkur vinnutími
Við framkvæmd reglna um daglega og vikulega hvíld starfsfólks er byggt á sérstakri skilgreiningu á hugtakinu vinnutími. Hugtakið er skilgreint sem sá tími sem starfsmaður er við störf, til taks fyrir atvinnurekandann og innir af hendi störf sín eða skyldur. Virkur vinnutími er einnig notað til að lýsa þessu hugtaki. Hvíldartími er þá sá tími sem ekki telst til vinnutíma. Hugtakið virkur vinnutími er ekki í öllum tilvikum það sama og greiddur vinnutími samkvæmt kjarasamningi.
Í dómi Landsréttar í máli nr. 197/2022 var lagt til grundvallar að tími sem varið væri í ferðalög utan hefðbundins vinnutíma til annars áfangastaðar en hefðbundinnar starfsstöðvar, í því skyni að inna af hendi störf eða skyldur, að kröfu vinnuveitanda, teldist vinnutími í skilningi vinnutímatilskipunar 2003/88/EB.
Niðurstaðan byggir á túlkun EFTA-dómstólsins á túlkun vinnutímahugtaks tilskipunarinnar, sbr. dóm dómstólsins frá 15. júlí 2021 í máli E-11/20.
Daglegur hvíldartími
Vinnutíma skal haga þannig að á 24 stunda tímabili, reiknað frá skipulögðu/ upphafi vinnudags starfsmanns, fái starfsmaður a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld. Verði því við komið, skal dagleg hvíld ná til tímabilsins frá kl. 23:00 til 06:00.
Skipulagt eða venjubundið upphaf vinnudags – skýring: Sé skipulagt upphaf vinnudags t.d. kl. 8:00, skal miða við það tímamark. Hafi starfsmaður á hinn bóginn fastan vinnutíma sem hefst t.d. kl. 20:00, skal sólarhringurinn miðaður við það tímamark. Í vaktavinnu er eðlilegt að miða upphaf vinnudags við merktan vinnudag á vaktskrá/varðskrá. Sé ekki um merktan vinnudag að ræða, t.d. aukavakt í vaktafríi, miðast upphafið við tímamörk síðasta merkta vinnudags.
Miðað er við samanlagðan vinnutíma hjá sama vinnuveitanda og skiptir því ekki máli hvort unnin eru tvö eða fleiri mismunandi störf eða hvort í gildi séu einn eða fleiri ráðningarsamningar við hann.
Frítökuréttur skapast sé starfsmaður sérstaklega beðinn um að mæta aftur til vinnu áður en 11 stunda lágmarkshvíld er náð, sem er venjulega 1,5 stund fyrir hverja stund sem hvíldin skerðist.
Frávík frá daglegum hvíldartíma
Á skipulegum vaktaskiptum er heimilt að stytta samfellda lágmarkshvíld starfsmanna í allt að 8 klst. Þetta á t.d. við þegar starfsmaður skiptir af morgunvakt yfir á næturvakt samkvæmt skipulagi vaktskrár.
Fráviksheimild þessi frá 11 klst. lágmarkshvíld á hins vegar ekki við þegar starfsmaður lýkur yfirvinnu og fer yfir á reglubundna vakt og öfugt.
Þar sem hér er um frávik frá meginreglunni um 11 klst. samfellda hvíld að ræða, verður að gera þá kröfu til vaktkerfis að það sé skipulagt þannig að skipti milli mismunandi tegunda vakta séu sem sjaldnast á vaktahring og að jafnaði reyni ekki á frávik þetta oftar en einu sinni í viku. Vinnan skal því skipulögð með sem jöfnustum hætti.
Einnig er heimilt að stytta daglega lágmarkshvíld vegna sérstakra aðstæðna, s.s. ef almannaheill krefst þess og/eða halda þarf uppi nauðsynlegri heilbrigðis- eða öryggis-þjónustu. Eins er ef truflun verður á starfsemi vinnustaðar vegna ytri aðstæðna, s.s. óveðurs.
Frítökuréttur
Frítökuréttur skapast sé starfsmaður sérstaklega beðinn um að mæta aftur til vinnu áður en 11 stunda lágmarkshvíld er náð, sem er venjulega 1,5 stund fyrir hverja stund sem hvíldin skerðist. Ávinnsla frítökuréttar einskorðast ekki við heilar stundir. Starfsmaður á ekki að mæta aftur til vinnu fyrr en að aflokinni 11 klst. hvíld nema hann hafi sérstaklega verið beðinn um það. Mæti starfsmaður eigi að síður áður en hann hefur náð hvíldinni, ávinnur hann sér ekki frítökurétt. Sjá nánar grein 2.4.5 í kjarasamningi aðildarfélaga BHM.
Heimilt er að greiða út ½ klst. (í dagvinnu) af hverri 1 ½ klst. sem starfsmaður hefur áunnið sér í frítökurétt, óski hann þess. Við starfslok skal ótekinn frítökuréttur gerður upp með sama hætti og orlof. Frítökuréttur fyrnist ekki.
Vikuleg hvíld
Á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður fá að minnsta kosti einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma starfsfólks, þ.e. 35 klst. samfellda hvíld, sbr. grein 2.4.4 í kjarasamningi aðildarfélaga BHM.
Hámarksvinnutími á viku
Hámarksvinnutími starfsmanna á viku að yfirvinnu meðtalinni skal ekki vera umfram 48 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili.
Næturvinna
Vinnutími næturvinnustarfsmanna skal að jafnaði ekki vera lengri en átta klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili.
Næturvinnustarfsmenn sem eiga við heilsufarsvandamál að stríða sem sannanlega verða rakin til vinnutíma skulu þegar kostur er færðir til í dagvinnustörf sem henta þeim.
Undanþágur
Ákvæði um daglegan og vikulegan lágmarkshvíldartíma starfsfólks gilda ekki um:
- stjórnendur og þá sem ráða vinnutíma sínum sjálfir,
- um sérstakar aðstæður sem tengjast starfsemi hins opinbera, svo sem nauðsynlegri öryggisstarfsemi og brýnum rannsóknarhagsmunum á sviði löggæslu, vinnu sem tengist starfsemi almannavarna og eftirlitsstörfum vegna snjóflóðavarna, sbr. 2. gr. vinnuverndarlaga, eða
- starfsfólk sem vinnur við veitingu þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, eftir því sem nánar er kveðið á um í 53. gr. b. vinnuverndarlaga.