Í kjarasamningum og í IX. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er kveðið á um lágmarksréttindi starfsfólks til hvíldartíma og takmörk á vinnutíma.
Reglurnar byggja á evrópskri vinnutímatilskipun (2003/88/EB), sem tryggir öllu starfsfólki ákveðin grunnréttindi. Í meginatriðum ber vinnuveitendum að tryggja eftirfarandi:
- Daglegan hvíldartíma: Að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld á hverjum sólarhring.
- Vikulegan hvíldartíma: Að minnsta kosti einn frídag í hverri viku.
- Hámarksvinnutíma: Vinnutími má að meðaltali ekki vera lengri en 48 klukkustundir á viku.
Þessi réttindi eiga að vera hluti af skipulagi vinnu á hverjum vinnustað og gilda óháð starfshlutfalli eða starfsheiti.
Hvað telst vinnutími – og hvað telst hvíld?
Við mat á því hvort starfsmaður eigi rétt á hvíld er fyrst litið til þess hvað telst vinnutími.
Vinnutími er sá tími sem starfsmaður:
- er að störfum,
- er til taks fyrir vinnuveitanda, og
- sinnir verkefnum sínum eða skyldum.
Stundum er talað um virkan vinnutíma til að lýsa þessu.
Hvíldartími er einfaldlega sá tími sem ekki telst til vinnutíma.
Þessi skilgreining hefur verið staðfest í dómaframkvæmd, bæði hér á landi og hjá EFTA-dómstólnum, og skiptir miklu máli þegar metið er hvort réttur til hvíldar hafi verið virtur.
Ferðalög utan hefðbundins vinnutíma
Dómstólar hafa staðfest að ferðalög geti talist vinnutími við ákveðnar aðstæður.
Ef starfsmaður:
- ferðast utan hefðbundins vinnutíma,
- að kröfu vinnuveitanda, og
- til annars staðar en venjulegrar starfsstöðvar,
þá telst sá tími almennt til vinnutíma.
Þetta hefur verið staðfest bæði af Landsrétti og Hæstarétti, í samræmi við túlkun EFTA-dómstólsins. Slík ferðalög geta því haft áhrif á rétt starfsmanns til daglegrar hvíldar og frítöku.
Í dómi Landsréttar (mál nr. 197/2022) var staðfest að tími sem starfsmaður ver í ferðalög utan hefðbundins vinnutíma, að kröfu vinnuveitanda og til annars áfangastaðar en venjulegrar starfsstöðvar, telst til vinnutíma samkvæmt vinnutímatilskipun 2003/88/EB. Niðurstaða Landsréttar var staðfest í Hæstarétti (mál nr. 52/2023).
Þessi niðurstaða byggir á túlkun EFTA-dómstólsins í máli E-11/20 frá 15. júlí 2021, þar sem hugtakið vinnutími var skilgreint með þessum hætti.
Daglegur hvíldartími
Starfsfólk á rétt á að minnsta kosti 11 klukkustunda samfelldri hvíld innan hvers 24 stunda tímabils.
24 stunda tímabilið miðast við upphaf vinnudags starfsmanns:
- Skipulagður vinnudagur: Ef vinnudagur hefst kl. 8:00, miðast sólarhringurinn við það.
- Fastur vinnutími: Ef starfsmaður byrjar reglulega kl. 20:00, er það upphafspunkturinn.
- Vaktavinna: Miðað er við merktan vinnudag á vaktskrá. Fyrir aukavakt í vaktafríi er miðað við síðasta merktan vinnudag.
Allur vinnutími hjá sama vinnuveitanda er lagður saman, jafnvel þótt starfsmaður sé í fleiri en einu starfi eða með fleiri en einn ráðningarsamning.
Ef mögulegt er, skal dagleg hvíld ná yfir tímabilið frá kl. 23:00 til 06:00.
Þegar dagleg hvíld skerðist – frítökuréttur
Starfsmaður á ekki að mæta aftur til vinnu fyrr en 11 klukkustunda hvíld er náð, nema hann sé sérstaklega beðinn um það.
Ef það gerist:
- myndast frítökuréttur,
- að jafnaði 1,5 klukkustund í frí fyrir hverja klukkustund sem vantar upp á hvíldina.
Þetta á einnig við um hluta úr klukkustund.
Skráning og nýting
- Uppsafnaður frítökuréttur skal vera skráður, annaðhvort á launaseðli eða í viðverukerfi.
- Frí er veitt í samráði við starfsmann, þegar rétturinn er orðinn að minnsta kosti fjórar klukkustundir.
- Frí skal ekki veitt í styttri lotum en fjórum klukkustundum.
- Leitast skal við að veita frí sem fyrst, til að koma í veg fyrir uppsöfnun.
Greiðsla og uppgjör
- Starfsmaður getur óskað eftir útgreiðslu á hluta frítökuréttar.
- Heimilt er að greiða út ½ klukkustund (í dagvinnu) fyrir hverjar 1½ klukkustundir í áunnum rétti.
- Við starfslok skal ótekinn frítökuréttur gerður upp á sama hátt og orlof.
- Frítökuréttur fyrnist ekki.
Undantekningar frá 11 klukkustunda reglunni
Í ákveðnum tilvikum má stytta daglega hvíld:
- Við skipulögð vaktaskipti, allt niður í 8 klukkustundir, t.d. þegar starfsmaður fer af morgunvakt á næturvakt samkvæmt vaktskrá.
- Þetta á ekki við þegar starfsmaður lýkur yfirvinnu og fer beint á reglubundna vakt – eða öfugt.
Þar sem um undantekningu er að ræða, skal:
- haga vaktaskipulagi þannig að þetta gerist sem sjaldnast,
- almennt ekki oftar en einu sinni í viku,
- og tryggja sem jafnast vinnuálag.
Einnig má stytta hvíld við sérstakar aðstæður, til dæmis þegar:
- almannaheill krefst þess,
- halda þarf uppi nauðsynlegri þjónustu, eða
- ófyrirséðar ytri aðstæður koma upp, svo sem óveður.
Vikuleg hvíld
Á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður fá:
- að minnsta kosti einn frídag,
- sem tengist beint daglegri hvíld.
Í reynd þýðir þetta 35 klukkustunda samfellda hvíld.
Hámarksvinnutími á viku
Heildarvinnutími, þar með talin yfirvinna, má ekki vera:
- lengri en 48 klukkustundir að meðaltali á viku,
- miðað við fjögurra mánaða tímabil.
Næturvinna
Vinnutími starfsfólks í næturvinnu skal að jafnaði:
- ekki vera lengri en 8 klukkustundir á hverju 24 stunda tímabili.
Ef starfsmaður fær heilsufarsvandamál sem rekja má til næturvinnu, skal – eftir því sem kostur er – færa hann í dagvinnu sem hentar honum betur.
Undanþágur – hverjir falla ekki undir reglurnar?
Ákvæði um daglega og vikulega lágmarkshvíld gilda ekki um:
- stjórnendur og þá sem ráða vinnutíma sínum sjálfir,
- ákveðnar sérstakar aðstæður í starfsemi hins opinbera, svo sem nauðsynlega öryggis- og löggæslustarfsemi, almannavarnir og brýna rannsóknarhagsmuni,
- starfsfólk sem veitir þjónustu samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, samkvæmt nánari reglum í vinnuverndarlögum.
Nánari upplýsingar
Aðildarfélög BHM veita nánari upplýsingar um réttindi, heimildir til frávika og framkvæmd frítökuréttar samkvæmt kjarasamningum.