Skip to content

Mismunun

Mismunun í starfskjörum og óheilbrigð samskipti á vinnustað geta leitt til alvarlegra heilsufarsvandamála.

Mismunun við ákvörðun launa, framgang í starfi o.s.frv. hvort sem hún er meðvituð eða afleiðing ómeðvitaðrar hlutdrægni í garð ákveðinna þjóðfélagshópa fer í bága við lög um bann við mismunun á vinnumarkaði.

Mismunun á sér ýmsar birtingarmyndir og eru ekki allar bundnar við hvernig laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf eru ákveðin. Samskipti vinnufélaga og við stjórnendur geta einnig verið lituð af fordómum. Starfsfólk sem upplifir framkomu af því tagi reglubundið getur fundið fyrir streitu, kvíða og þunglyndi.

Afleiðingar (langtíma) mismununar eru sambærilegar við einelti og kynferðislega áreitni. Hún skekkir sjálfsmynd þess sem fyrir henni verður og getur haft neikvæð áhrif á starfshæfni og starfsánægju. Ef ekki er brugðist við á raunhæfan hátt til að uppræta launamun og óheilbrigð samskipti getur það leitt til alvarlegra heilsufarsvandamála.