• BHM-KRABBAMEINSF+eLAGI+E-03

Fæðingarorlof og foreldraorlof

Lengd orlofs og upphæðir

Réttur til fæðingarorlofs skapast við:

  • Fæðingu barns
  • Frumættleiðingu barns yngra en 8 ára
  • Töku barns yngra en 8 ára í varanlegt fóstur
  • Fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu
  • Andvanafæðingu eftir 22ja vikna meðgöngu

Lengd fæðingarorlofs

Samanlagt fæðingarorlof er 9 mánuðir. Móðir á rétt á 3 mánuðum og faðir í 3 mánuði. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér. 

Upphæðir fæðingarorlofs

Mánaðarlegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjói til foreldris í fullu fæðingarorlofi eru 80% af meðaltali heildarlauna.  Mánaðarleg greiðsla nemur að hámarki 500.000 kr. á mánuði. Miðað er við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Sjá nánar reiknivel á vef Fæðingarorlofssjóðs

Mæðravernd

Barnshafandi konur eiga rétt til nauðsynlegra fjarvista frá vinnu vegna mæðraskoðunar, án frádráttar á föstum launum, þurfi slík skoðun að fara fram í vinnutíma.

Uppsögn í fæðingarorlofi

Óheimilt er að segja starfsmanni upp störfum sem tilkynnt hefur um fæðingarorlof eða er í slíku orlofi nema til þess liggi skriflegar rökstuddar ástæður sem mega með engum hætti tengjast töku fæðingarorlofs eða fyrirhuguðu fæðingarorlofi. 

Sumarorlof eftir fæðingarorlof og desember- og orlofsuppbætur

  • Félagsmenn á opinberum vinnumarkaði: Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, s.s. orlofstöku og lengingar á orlofi samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Opinberir starfsmenn ávinna sér bæði orlofsrétt og rétt til orlofslauna í fæðingarorlofi. Starfsmaður í fæðingarorlofi á jafnframt rétt til greiðslu orlofs- og desemberuppbótar. 
  • Félagsmenn á almennum vinnumarkaði:  Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, s.s. orlofstöku og lengingar á orlofi samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Á almennum vinnumarkaði telst fæðingarorlof til unnins tíma við útreikning orlofsréttar, þ.e. réttar til frítöku en ekki til orlofslauna. Samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði skulu fjarvistir starfsmanna vegna fæðingarorlofs, sem starfað hafa 1 ár eða lengur hjá atvinnurekanda, teljast til starfstíma við útreikning desember- og orlofsuppbótar. 

Fæðingarstyrkur frá sjóðum BHM

Fæðingarstyrkir úr sjóðum BHM eru til viðbótar við greiðslur Fæðingarorlofssjóðs. Tveir sjóðir BHM veita fæðingarstyrki:

  • Styrktarsjóður BHM (opinber vinnumarkaður). Sjá upplýsingar um styrki hér.
  • Sjúkrasjóður BHM (almennur vinnumarkaður). Sjá upplýsingar um styrki hér.

Foreldraorlof

Foreldrar sem eru starfandi á íslenskum vinnumarkaði eiga rétt á 4ra mánaða launalausu foreldraorlofi.  Rétturinn fellur niður við 8 ára aldur barns.  Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til foreldraorlofs sem er ekki framseljanlegur.  Foreldraorlofsrétturinn skiptist þannig að hvort foreldri um sig á sjálfstæðan og óframseljanlegan rétt til 4ra mánaða orlofs til að annast barn sitt (2 x 4 mánuðir fyrir hvert barn). Þau réttindi sem starfsmaður hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi foreldraorlofs haldast óbreytt til loka orlofsins ásamt þeim breytingum sem kunna að hafa orðið á áunnum réttindum á grundvelli laga eða kjarasamninga. 

Ítarefni

Fæðingarorlof og foreldraorlof samkvæmt lögum og reglugerðurm