• BHM-KRABBAMEINSF+eLAGI+E-03

Fæðingarorlof og foreldraorlof

Lengd orlofs og upphæðir

Réttur til fæðingarorlofs skapast við:

  • Fæðingu barns
  • Frumættleiðingu barns yngra en 8 ára
  • Töku barns yngra en 8 ára í varanlegt fóstur
  • Fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu
  • Andvanafæðingu eftir 22ja vikna meðgöngu

Lengd fæðingarorlofs

Samanlagt fæðingarorlof er 10 mánuðir. Móðir á rétt á 4 mánuðum og faðir í 4 mánuði. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á tveimur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér. 
Sjá nánar hér

Í fæðingarorlofslögum kemur fram að ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda helst óbreytt í fæðingar- og foreldraorlofi. Starfsmaður skal eiga rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.

Upphæðir fæðingarorlofs

Mánaðarlegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldris í fullu fæðingarorlofi eru 80% af meðaltali heildarlauna.  Mánaðarleg greiðsla nemur að hámarki 600.000 kr. á mánuði. Miðað er við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Sjá nánar hér og reiknivel á vef Fæðingarorlofssjóðs

Mæðravernd

Barnshafandi konur eiga rétt til nauðsynlegra fjarvista frá vinnu vegna mæðraskoðunar, án frádráttar á föstum launum, þurfi slík skoðun að fara fram í vinnutíma.

Uppsögn í fæðingarorlofi

Óheimilt er að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs, er í fæðingarorlofi, er þungaður eða hefur nýlega alið barn nema gildar ástæður séu fyrir hendi, sem mega með engum hætti tengjast töku fæðingarorlofs eða fyrirhuguðu fæðingarorlofi, og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. 

Sumarorlof eftir fæðingarorlof og desember- og orlofsuppbætur

  • Félagsmenn á opinberum vinnumarkaði: Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, s.s. orlofstöku og lengingar á orlofi samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Opinberir starfsmenn ávinna sér bæði orlofsrétt og rétt til orlofslauna í fæðingarorlofi. Starfsmaður í fæðingarorlofi á jafnframt rétt til greiðslu orlofs- og desemberuppbótar. 
  • Félagsmenn á almennum vinnumarkaði:  Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, s.s. orlofstöku og lengingar á orlofi samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Á almennum vinnumarkaði telst fæðingarorlof til unnins tíma við útreikning orlofsréttar, þ.e. réttar til frítöku en ekki til orlofslauna. Samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði skulu fjarvistir starfsmanna vegna fæðingarorlofs, sem starfað hafa 1 ár eða lengur hjá atvinnurekanda, teljast til starfstíma við útreikning desember- og orlofsuppbótar. 

Fæðingarstyrkur frá sjóðum BHM

Fæðingarstyrkir úr sjóðum BHM eru til viðbótar við greiðslur Fæðingarorlofssjóðs. Tveir sjóðir BHM veita fæðingarstyrki:

  • Styrktarsjóður BHM (opinber vinnumarkaður). Sjá upplýsingar um styrki hér.
  • Sjúkrasjóður BHM (almennur vinnumarkaður). Sjá upplýsingar um styrki hér.

Foreldraorlof

Foreldrar sem eru starfandi á íslenskum vinnumarkaði eiga rétt á 4ra mánaða launalausu foreldraorlofi.  Rétturinn fellur niður við 8 ára aldur barns.  Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til foreldraorlofs sem er ekki framseljanlegur.  Foreldraorlofsrétturinn skiptist þannig að hvort foreldri um sig á sjálfstæðan og óframseljanlegan rétt til 4ra mánaða orlofs til að annast barn sitt (2 x 4 mánuðir fyrir hvert barn). Þau réttindi sem starfsmaður hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi foreldraorlofs haldast óbreytt til loka orlofsins ásamt þeim breytingum sem kunna að hafa orðið á áunnum réttindum á grundvelli laga eða kjarasamninga. 

Ítarefni

Fæðingarorlof og foreldraorlof samkvæmt lögum og reglugerðurm