Skip to content

Fjölskylduábyrgð

Óheimilt er að segja starfsfólki upp störfum vegna fjölskylduábyrgðar sem það ber.

Með fjölskylduábyrgð í skilningi laga nr. 27/2000 er átt við skyldur gagnvart börnum, maka eða nánum skyldmennum sem búa á heimili starfsmanns og greinilega þarfnast umönnunar hans eða forsjár, svo sem vegna veikinda eða fötlunar.

Lögin byggja á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 156, um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu: Starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Samþykktin var afgreidd af 67. alþjóðavinnumálaþinginu í Genf árið 1981. Samtímis voru afgreidd tilmæli nr. 165 sem bera sama nafn og samþykktin og fela í sér nánari útfærslu á efni hennar.

Í greinargerð með frumvarpi til framangreindra laga segir að höfð sé hliðsjón af ákvæðum samþykktarinnar sem taki til starfsmanna sem hafa skyldum að gegna gagnvart eigin börnum á framfæri, þegar slíkar skyldur skerða möguleika þeirra til undirbúnings, þátttöku eða frama í atvinnulífinu.

Samþykktin tekur einnig til starfsmanna sem hafa skyldum að gegna gagnvart öðrum nánum vandamönnum sem greinilega þarfnast umönnunar þeirra eða forsjár, þegar slíkar skyldur skerða möguleika þeirra til undirbúnings, þátttöku eða frama í atvinnulífinu.

Um skilgreiningu hugtakanna „barn á framfæri“ og „öðrum nánum vandamönnum sem greinilega þarfnast umönnunar eða forsjár“ fer samkvæmt lögum hvers ríkis.

Samþykkt ILO nr. 156 tilheyrir flokki samþykkta þar sem skorað er á ríki að tryggja jafnrétti kvenna og karla á vinnumarkaði. Hinar samþykktirnar eru nr. 111, um mismunun, meðal annars vegna kynferðis, með tilliti til starfs og launa, nr. 100, um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf, nr. 183, um mæðravernd og nr. 190, um aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni á vinnustöðum. Sjá nánar á heimasíðu ILO.