Fæðingarorlof

Foreldrar eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að sex mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur.

Foreldri er heimilt að framselja sex vikur af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins, sbr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof.

Heildarréttur foreldra er því 12 mánuðir.

Greiðslur

Mánaðarlegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldris í fullu fæðingarorlofi eru 80% af meðaltali heildarlauna, að hámarki 600.000 kr. (mv. 2023).

Ákvörðun meðallauna miðast við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur 6 almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann mánuð sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur.

Einungis er miðað við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, án tillits til þess hvort um laun í vinnusambandi er að ræða eða reiknað endurgjald sjálfstætt starfandi einstaklings. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Útreikningur á greiðslum byggist á upplýsingum um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda.

Nánari upplýsingar um ákvörðun réttinda eru veittar á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs.

Tilkynning um töku fæðingarorlof

Þegar starfsmaður hyggst nýta sér rétt til fæðingarorlofs skal hann tilkynna það vinnuveitanda eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi átta vikum fyrir fyrirhugaðan fæðingardag barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. 12. gr.

Vilji starfsmaður breyta áður tilkynntum upphafsdegi fæðingarorlofs eða tilkynna um nýtt tímabil fæðingarorlofs, ber honum að tilkynna það vinnuveitanda þremur vikum fyrir hinn nýja fyrirhugaða upphafsdag fæðingarorlofs.

Tilhögun fæðingarorlofs

Starfsmaður á rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi.

Með samkomulagi við vinnuveitanda er þó heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri en eitt tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Þó má aldrei taka fæðingarorlof skemur en hálfan mánuð í senn, sbr. 13. gr.

Ef vinnuveitandi getur ekki komið til móts við óskir starfsmannsins skulu þeir komast að samkomulagi um aðra tilhögun fæðingarorlofsins innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar um töku fæðingarorlofs. Skal það gert skriflega og ástæður fyrir breyttri tilhögun tilgreindar.

Uppsagnarvernd

Óheimilt er að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs, eða er í fæðingar- eða foreldraorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni, sbr. 50. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof.

Sama gildir um uppsagnir þungaðrar konu og konu sem nýlega hefur alið barn.

Vinnuveitandinn verður að sína fram á gildar ástæður fyrir uppsögn.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 318/2008 var fjallað um uppsögn starfsmanns eftir að hann hafði tilkynnt vinnuveitanda um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs. Vinnuveitandi rökstuddi uppsögn með vísan til skipulagsbreytinga, staðan yrði lögð niður og verkefnum útvistað til auglýsingastofu. Hæstiréttur taldi að félaginu hefði ekki tekist að færa sönnur á gildar ástæður fyrir uppsögn í skilningi laganna. Fram kom að auglýsingastofan átti samkvæmt samningnum einungis að verja tíma sem svaraði til um fjórðungs af fullum mánaðarlegum starfstíma umrædds starfsmanns. Engar upplýsingar um sparnað af uppsögninni voru lagðar fram eða sýnt fram á annað hagræði í rekstri sökum uppsagnarinnar.

Sjá einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 257/2011.

Endurkoma úr fæðingarorlofi

Starfsmaður á rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.

Ávinnsla réttinda

Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta, sbr. 2. mgr. 14. laganna. Eins gildir um leyfi frá störfum sem veitt er þungaðri konu af heilsufarsástæðum, sbr. 11. gr.

Ólíkjar reglur gilda um ávinnslu orlofslauna í fæðingarorlofi eftir því hvort starfið er hjá hinu opinbera eða á almennum vinnumarkaði.

Opinberir starfsmenn

Samkvæmt kjarasamningum aðildarfélaga BHM ávinna opinberir starfsmenn sér bæði orlofsrétt og rétt til orlofslauna í fæðingarorlofi. Starfsmaður í fæðingarorlofi á jafnframt rétt til greiðslu orlofs- og desemberuppbótar.

Almennur vinnumarkaður
Á almennum vinnumarkaði telst fæðingarorlof til unnins tíma við útreikning orlofsréttar, þ.e. réttar til frítöku en ekki til orlofslauna. Samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði skulu fjarvistir starfsmanna vegna fæðingarorlofs, sem starfað hafa 1 ár eða lengur hjá atvinnurekanda, teljast til starfstíma við útreikning desember- og orlofsuppbótar, sbr. grein 5.4. í kjarasamningi SA og aðildarfélaga BHM .

Greiðslur í lífeyrissjóð og til stéttarfélags

Meðan á fæðingarorlofi stendur greiðir foreldri að lágmarki 4% af fæðingarorlofsgreiðslu í lífeyrissjóð og Fæðingarorlofssjóður að lágmarki 11,5% mótframlag.

Foreldri er heimilt að greiða í séreignasjóð en Fæðingarorlofssjóður greiðir ekki mótframlag.

Foreldri er heimilt að greiða til stéttarfélags meðan á fæðingarorlofi stendur. Sé það ekki gert kunna réttindi hjá stéttarfélagi að skerðast eða falla niður.

Veikindi og fæðingarorlof

Veikindi á meðgöngu

Sé barnshafandi konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum sem tengjast meðgöngunni að fá leyfi frá störfum eða hætta þátttöku á vinnumarkaði meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns að mati sérfræðilæknis skal hún eiga rétt á lengingu fæðingarorlofs og greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þann tíma sem um ræðir en þó aldrei lengur en í tvo mánuði.

Með heilsufarsástæðum sem tengjast meðgöngunni er átt við sjúkdóma sem upp kunna að koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni, tímabundna eða langvarandi sjúkdóma sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni sem og meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda hafi meðferðin í för með sér óvinnufærni. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar samkvæmt þessu ákvæði niður frá þeim tíma.

Umsókn um lengingu fæðingarorlofsskal fylgja staðfesting vinnuveitanda og/eða Vinnumálastofnunar, eftir því sem við á.

Veikindi foreldris í tengslum við fæðingu barns

Heimilt er að lengja fæðingarorlof foreldris sem fætt hefur barn um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda foreldrisins í tengslum við fæðinguna enda verði veikindin rakin til fæðingarinnar og foreldrið hafi af þeim völdum verið ófært um að annast barn sitt í fæðingarorlofi sínu að mati sérfræðilæknis.

Rökstyðja skal þörf á lengingu fæðingarorlofs með vottorði sérfræðilæknis og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af framangreindu vottorði. Vinnumálastofnun metur hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.

Veikindi barns

Heimilt er að lengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að sjö mánuði þegar barn þarf að dveljast á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu eða ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika hjá barni eða alvarlega fötlun barns sem krefst nánari umönnunar foreldris.

Rökstyðja skal þörf á lengingu fæðingarorlofs með vottorði þess sérfræðilæknis sem annast hefur barnið og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af framangreindu vottorði. Vinnumálastofnun skal meta hvort lenging fæðingarorlofs er nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.

Um túlkun þessa heimildarákvæðis má lesa í máli úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 358/2021.

Veikindi foreldris í fæðingarorlofi

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof er ekki fjallað um heimild móður sem veikist í fæðingarorlofi, þ.e. án veikinda sem tengjast fæðingu barns, til að gera hlé á töku fæðingarorlofs og fara á veikindalaun frá vinnuveitanda.

Í kjarasamningum aðildarfélaga BHM við ríki og sveitarfélög er tekið fram (grein 12.7.1) að veikindatími starfsmanns í fæðingarorlofi teljist ekki til veikindaforfalla og á starfsmaður því ekki rétt til launa í veikinda- og slysatilvikum þann tíma.

Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í öðrum kjarasamningum aðildarfélaga BHM. Almennt má þó gera ráð fyrir því að niðurstaðan sé sú sama.

Með vísan til framanritaðs verður því að telja að móðir sem veikist eða lendir í slysi eigi hvorki lög- né samningsbundinn rétt til að gera hlé á töku fæðingarorlofs og fara á veikindalaun samkvæmt kjarasamningi.

Á hinn bóginn getur móðir leitað eftir því við vinnuveitanda að hann samþykki breytingar á tilhögun fæðingarorlofs. Ef hann fellst á þá málaleitan væri greiðslu fæðingarorlofs frestað og umsamin veikindalaun tækju við.

Fæðingarstyrkur

- utan vinnumarkaðar

Foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að sex mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. 1. mgr. 26. gr.

Foreldri er heimilt að framselja sex vikur af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins. Réttur til fæðingarstyrks vegna fæðingar barns stofnast við fæðingu barnsins og fellur niður er barnið nær 24 mánaða aldri.

- námsmenn

Foreldrar, sem verið hafa í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, eiga rétt til fæðingarstyrks, sbr. 1. mgr. 27. gr.

Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu.

Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Sjóðir BHM

Fæðingarstyrkir úr sjóðum BHM koma til viðbótar við greiðslur Fæðingarorlofssjóðs. Tveir sjóðir BHM veita fæðingarstyrki, þ.e. styrktarsjóður BHM (opinber vinnumarkaður) og sjúkrasjóður BHM (almennur vinnumarkaður).

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt