Skip to content

Fæðingarorlof

Foreldrar eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að fjóra mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur.

Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á tveimur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér, sbr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof.

Mánaðarlegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldris í fullu fæðingarorlofi eru 80% af meðaltali heildarlauna, að hámarki 600.000 kr. (mv. 2022). Nánari upplýsingar um ákvörðun réttinda og útreikning greiðslna eru á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs.

Uppsagnarvernd

Óheimilt er að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs, eða er í fæðingar- eða foreldraorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Sama gildir um uppsagnir þungaðrar konu og konu sem nýlega hefur alið barn, sbr. 30. gr. Um túlkun á því hvað teljast gildar ástæður í skilningi ákvæðisins má lesa í dómi Hæstaréttar (mál nr. 257/2011).

Það leiðir af ákvæði laganna um uppsagnarvernd að starfsmaður á rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.

Ávinnsla réttinda

Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta, sbr. 2. mgr. 14. áðurnefndra laga. Eins gildir um leyfi frá störfum sem veitt er þungaðri konu af heilsufarsástæðum, sbr. 11. gr.

Samkvæmt kjarasamningum aðildarfélaga BHM ávinna opinberir starfsmenn sér hins vegar bæði orlofsrétt og rétt til orlofslauna í fæðingarorlofi. Starfsmaður í fæðingarorlofi á jafnframt rétt til greiðslu orlofs- og desemberuppbótar.

Á almennum vinnumarkaði telst fæðingarorlof til unnins tíma við útreikning orlofsréttar, þ.e. réttar til frítöku en ekki til orlofslauna. Samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði skulu fjarvistir starfsmanna vegna fæðingarorlofs, sem starfað hafa 1 ár eða lengur hjá atvinnurekanda, teljast til starfstíma við útreikning desember- og orlofsuppbótar, sbr. grein 5.4. í kjarasamningi SA og aðildarfélaga BHM .

Sjóðir BHM

Fæðingarstyrkir úr sjóðum BHM koma til viðbótar við greiðslur Fæðingarorlofssjóðs. Tveir sjóðir BHM veita fæðingarstyrki, þ.e. styrktarsjóður BHM (opinber vinnumarkaður) og sjúkrasjóður BHM (almennur vinnumarkaður).