Fjarvinna

Fjarvinna gerir fólki kleift að vinna utan síns hefðbundna vinnustaðar. Slík vinnutilhögun getur verið skipulögð yfir lengra tímabil eða tilfallandi eftir því sem um semst hverju sinni.

Umtalsverð aukning varð á fjarvinnu vegna Covid á árunum 2020-2021 þegar vinnuveitendur voru hvattir til að skipuleggja fjarvinnu starfsfólks þar sem því varð við komið til að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins.

Fjarvinna býður upp ákveðinn sveigjanleika fyrir starfsfólk með fjölskylduábyrgð og aðra sem hafa möguleika á því að vinna heiman frá sér. Í kjölfar kórónuveirufaraldursins hefur því verið rætt um að mikilvæg sé að þessi sveigjanleika verði festur í sessi til framtíðar. Víða er fjarvinna þegar orðin fastur liður í skipulagi vinnu starfsfólks.

Fjármálaráðuneytið hefur birt leiðbeiningar fyrir stofnanir ríkisins um upptöku fjarvinnu, skipulag og ábyrgð. Þar kemur m.a. fram að vinnuveitandi beri ábyrgð á heilbrigði og öryggi starfsmanns vegna vinnunnar í samræmi við vinnuverndarlög og kjarasamninga. Til að staðfesta að viðeigandi reglum um heilbrigði og öryggi sé fylgt hafi vinnuveitandi og/eða trúnaðarmenn aðgang að þeim stað þar sem fjarvinna fer fram, þó með þeim takmörkum sem lög og kjarasamningar geyma. Vinni starfsmaður á heimili sínu er slíkur aðgangur þó háður fyrirfram tilkynningu og samþykki starfsmanns. Vinnuveitandi ber ábyrgð á því að hugbúnaður sem starfsmaður notar og vinnur með í starfi sínu sé þannig úr garði gerður að vernd gagna sé tryggð. Vinnuveitandi upplýsir starfsmann hvort tveggja um lagareglur sem máli skipta og reglur vinnustaðarins varðandi verndun gagna. Það er á ábyrgð starfsmannsins að fara eftir þessum reglum.

Í gildi er samkomulag á vinnumarkaði um fjarvinnu, frá árinu 2006, þar sem meðal annars er að finna skilgreiningu fjarvinnu, fjallað um notkun á hvers kyns búnaði við störf og skil milli vinnu og einkalífs. Þá er bókun um fjarvinnu í kjarasamningi aðildarfélaga BHM við Samtök atvinnulífsins (SA) frá júní 2021. Á grunni þeirrar bókunar hafa samningsaðilar útbúið fjarvinnusniðmát sem félagsmenn þeirra geta nýtt sér vegna fjarvinnu sem er unnin reglulega eða alfarið á starfsstöð utan hefðbundinnar starfsstöðvar atvinnurekanda.

Snemma árs 2021 kannaði BHM umfang og umgjörð fjarvinnu sem félagsmenn aðildarfélaga bandalagsins inna af hendi og viðhorf þeirra til þessa vinnuforms. Hér má lesa um niðurstöður könnunarinnar. Þar kom m.a. fram að 60% félagsmanna BHM telja mikilvægt að bandalagið beiti sér fyrir því að réttur til heimavinnu verði tryggður í næstu kjarasamningum.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt