Skip to content

Sorgarleyfi

Foreldri sem verður fyrir því áfalli að missa barn eða fóstur á rétt á leyfi frá störfum og fjárhagsstuðningi frá hinu opinbera.

Foreldri á rétt til sorgarleyfis í allt að sex mánuði frá þeim degi sem það verður fyrir barnsmissi, sbr. lög um sorgarleyfi.

Einnig er kveðið á um rétt foreldris til sorgarleyfis vegna andvanafæðingar eða fósturláts í allt að þrjá mánuði frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu á foreldri rétt til sorgarleyfis í allt að tvo mánuði frá þeim degi sem fósturlátið á sér stað. Réttur til sorgarleyfis stofnast við andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu eða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu og fellur niður 24 mánuðum eftir andvanafæðingu eða fósturlát.

Til að öðlast rétt til greiðslna í sorgarleyfi þarf foreldri að hafa verið í a.m.k. 25% samfelldu starfi í 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir barnsmissi. Lögin ná einnig til sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Almenna reglan er að foreldri nýti rétt sinn til sorgarleyfis í einu lagi. Með samkomulagi við vinnuveitanda má haga sorgarleyfi á þann veg að það skiptist niður á fleiri en eitt tímabil og/eða það verði nýtt samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Sorgarleyfi reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem veikindarétti sem og rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, uppsagnarfrests og atvinnuleysisbóta.

Sorgarstyrkur er fyrir foreldra í fullu námi eða eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

Sótt er um greiðslur í sorgarleyfi hjá Vinnumálastofnun.