Sorgarleyfi

Foreldri sem verður fyrir því áfalli að missa barn yngra en 18 ára eða fóstur á rétt á leyfi frá störfum og fjárhagsstuðningi frá hinu opinbera.

Markmið laga um sorgarleyfi er að tryggja foreldrum svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis og eftir atvikum til að styðja við eftirlifandi systkin við að aðlagast breyttum aðstæðum. Þá er lögunum ætlað að auka líkur á að foreldrar geti átt farsæla endurkomu á vinnumarkað og geti tekið virkan þátt í samfélaginu að nýju í kjölfar barnsmissis.

Lögn taka til réttinda foreldra sem hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði til sorgarleyfis sem og greiðslna til að koma til móts við tekjutap þeirra á því tímabili sem sorgarleyfi varir.

Lögin taka einnig til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldra í fullu námi til sorgarstyrks.

Réttur til sorgarleyfis

  • Foreldri sem hefur verið í samfelldu starfi á sjálfstæðan rétt til sorgarleyfis í allt að sex mánuði frá þeim degi sem það verður fyrir barnsmissi. Réttur stofnast þann dag sem foreldri verður fyrir barnsmissi og fellur niður 24 mánuðum síðar.
  • Sorgarleyfi er veitt vegna andvanafæðingar eða fósturláts í allt að þrjá mánuði frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu.
  • Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu á foreldri rétt til sorgarleyfis í allt að tvo mánuði frá þeim degi sem fósturlátið á sér stað.

Tilkynning og tilhögun sorgarleyfis

Þegar foreldri sem vinnur launað starf í annarra þjónustu hyggst nýta rétt sinn til sorgarleyfis skal foreldrið tilkynna það vinnuveitanda eins fljótt og kostur er og skal tilgreina upphafsdag, lengd og tilhögun sorgarleyfis að öðru leyti.
Vilji foreldri breyta áður tilkynntri tilhögun sorgarleyfis ber foreldrinu að tilkynna það vinnuveitanda a.m.k. einni viku fyrir upphafsdag nýrrar tilhögunar sorgarleyfis og tilgreina þar eftir því sem við á nýjan upphafsdag, lengd og tilhögun sorgarleyfis að öðru leyti.

Almenna reglan er að foreldri nýti rétt sinn til sorgarleyfis í einu lagi.

Með samkomulagi við vinnuveitanda má þó haga sorgarleyfi á þann veg að það skiptist niður á fleiri en eitt tímabil og/eða það verði nýtt samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Greiðslur

Til að öðlast rétt til greiðslna í sorgarleyfi þarf foreldri að hafa verið í a.m.k. 25% samfelldu starfi í 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir barnsmissi. Sjá nánar um útreikning greiðslna og upphæðir (2023).

Lögin gilda einnig um foreldra sem starfað hafa sem sjálfstætt starfandi einstaklingar.

Sorgarstyrkur er fyrir foreldra í fullu námi eða sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

Sótt er um greiðslur í sorgarleyfi hjá Vinnumálastofnun.

Ávinnsla réttinda

Sorgarleyfi reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem veikindarétti sem og rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, uppsagnarfrests og atvinnuleysisbóta.

Stuðningur

Sorgarmiðstöð sinnir fræðslu og ráðgjöf til syrgjenda og þeirra sem vinna að velferð syrgjenda.

Sorgarmiðstöð er samstarfsverkefni grasrótarfélaga á sviði sorgarúrvinnslu.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt