Rétturinn til að aftengjast

Starfsfólk ætti ekki að sinna vinnutengdum verkefnum utan umsamins vinnutíma.

Stafræn tækni skapar starfsfólki og stofnunum sveigjanleika í samskiptum og vinnuskilum sem ekki eru bundin við hina hefðbundnu starfsstöð. Ef ekki er að gætt getur slík vinnutilhögun þó leitt til óhóflegra inngripa í frítíma fólks og máð út skil vinnu og einkalífs. Í ljósi reynslunnar hefur umræðan því beinst að mikilvægi réttarins til að aftengjast í lok vinnudags.

Enn sem komið er hefur þessi réttur ekki verið skilgreindur í lögum eða samningum hér á landi eða í reglum EES-réttar. Vinnutímatilskipunin (tilskipun 2003/88/EB) vísar þó til fjölda réttinda sem óbeint tengjast þessum rétti, einkum ákvæði um daglegan og vikulegan hvíldartíma, sem hafa þann tilgang að vernda heilsu og öryggi starfsmanna.

Í Evrópustoð félagslegra réttinda (European Pillar of Social Rights) er ekki vísað sérstaklega til réttarins til að aftengjast. Krafa launafólks um að geta notið frítíma síns án truflunar fellur þó að markmiðum stoðarinnar um betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs (nr. 9) og persónuvernd (nr. 10).

Evrópuþingið samþykkti í byrjun árs 2021 ályktun þar sem skorað er á framkvæmdastjórn ESB að leggja fram tillögu að tilskipun til að tryggja rétt starfsfólks til að aftengjast. Þar kemur fram að mikil notkun stafrænna tækja til fjarvinnu framlengi umsaminn vinnutíma og rjúfi mörkin milli vinnu og einkalífs. Tryggja verði rétt starfsfólks til að neita verkefnum utan vinnutíma án þess að óttast viðurlög eða áminningu.

Heildarsamtök launafólks í Evrópu (ETUC) annars vegar og samtök atvinnurekanda á almennum og opinberum vinnumarkaði hins vegar (BusinessEurope, SGI Europe and SMEunited) undirrituðu sameiginlega starfsáætlun í lok júní 2022, til áranna 2022-24, sem m.a. geymir áform um endurskoðun rammasamnings um fjarvinnu frá 2002. Rétturinn til að aftengjast er meðal viðfangsefna í þeirri endurskoðun. Kallað verður eftir því að nýr samningur verði staðfestur af hálfu Evrópusambandsins í formi tilskipunar.

Nánari upplýsingar:

European Parliament's briefing – the right to disconnect

Rannsókn á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) staðfestir nauðsyn þess að starfsmenn geti aftengst, þ. á m. starfsfólk í fjarvinnu.

Guiding Principles on Implementing Workers’ Right to Disconnect. Report of the European Law Institute, 2023

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt