Aðalfundur BHM

Aðalfundur BHM fer með æðsta vald í málefnum bandalagsins. Hann er haldinn árlega á vorin, fyrir lok maímánaðar. Á aðalfundi eiga sæti fulltrúar aðildarfélaga BHM. 

Ákvæði í lögum BHM um aðalfund

3.0.  Aðalfundur

Aðalfundur BHM fer með æðsta vald í málefnum bandalagsins.

3.1. Undirbúningur og tímasetning

Aðalfund skal halda fyrir lok maímánaðar ár hvert. Formannaráð undirbýr aðalfund og ákveður dagsetningu hans á fundi í síðasta lagi í febrúarmánuði. Formannaráð ákveður hvaða starfsnefndir starfa á aðalfundi. Stjórn BHM ber ábyrgð á framkvæmd aðalfundar. 

3.2. Uppstillingarnefnd

Uppstillingarnefnd skal kosin á aðalfundi og skal vera skipuð fimm fullgildum félagsmönnum í aðildarfélagi að BHM. Að auki skulu kosnir tveir nefndarmenn til vara. Nefndin stillir upp frambjóðendum til stjórnar eða nefndarsetu fyrir aðalfund og skal uppstilling nefndarinnar endurspegla samsetningu aðildarfélaga BHM. Tillögur nefndarinnar skulu liggja fyrir áður en boðað er til aðalfundar og skulu nöfn frambjóðenda koma fram í aðalfundarboði. Stjórn setur nefndinni erindisbréf. Formannaráð gefur út erindisbréf nefndarinnar.

3.3. Fulltrúar á aðalfundi

Á aðalfundi á sæti einn fulltrúi fyrir fyrstu fimmtíu félagsmenn hvers aðildarfélags og tveir félagsmenn fyrir fyrsta hundrað félagsmanna. Auk þess skulu aðildarfélög tilnefna einn fulltrúa fyrir hvert byrjað hundrað félagsmanna umfram eitthundrað.

Listi yfir fulltrúa á aðalfundi BHM, staðfestur af viðkomandi félagi, skal hafa borist skrifstofu BHM eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Hver fulltrúi með kjörbréf hefur eitt atkvæði á aðalfundi.

Tala fulltrúa miðast við meðaltalsfjölda félagsmanna síðustu þrjá mánuði fyrir aðalfund.

3.4. Boðun aðalfunda

Boðun á aðalfund skal send með rafrænum hætti til aðildarfélaga með minnst þriggja vikna fyrirvara.

3.5. Efni fundarboða

Í fundarboði skal geta dagskrár en auk þess skulu tillögur uppstillingarnefndar fylgja fundarboðinu. Þá skulu tillögur stjórnar BHM og einstakra aðildarfélaga um breytingar á lögum bandalagsins fylgja fundarboði. Aðrar lagabreytingar verða ekki teknar fyrir.

Öll fundargögn aðalfundar skulu gerð aðgengileg fulltrúum aðildarfélaga BHM eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund.

3.6. Dagskrá aðalfundar

Á dagskrá aðalfundar skulu vera eftirtaldir liðir:

1. Kosning fundarstjóra og ritara

2. Skýrsla stjórnar

3. Reikningar BHM

4. Afgreiðsla tillagna frá stefnumótunarþingi

5. Starfsáætlun

6. Ákvörðun árgjalds

7. Fjárhagsáætlun til kynningar

8. Lagabreytingar

9. Tilkynningar um breytingar á skipulagsskrám og reglugerðum sjóða og staðfesting þeirra

10. Kjör formanns og þriggja stjórnarmanna annað hvert ár. Kjör varaformanns og tveggja  stjórnarmanna það ár sem formaður er ekki kjörinn. Ef formaður hættir áður en ár er liðið frá  kjöri tekur varaformaður sæti hans fram að næsta aðalfundi og skal þá kjósa formann til tveggja  ára og varaformann til eins árs. Tveir varamenn í stjórn, tveir skoðunarmenn reikninga og einn til  vara, skulu kjörnir árlega

11. Kjör fulltrúa í fastanefndir, uppstillingarnefnd og stjórnir sjóða.

12. Aðildarumsóknir

13. Önnur mál

Atkvæðagreiðsla skal fara fram um liði 1, 3, 4, 5, 6, 8, 10, 11 og 12. Atkvæðagreiðsla um mál sem lögð eru fram undir öðrum málum fer eftir atvikum hverju sinni.

3.7. Aukaaðalfundur

Formannaráð getur boðað til aukaaðalfundar með a.m.k. 2/3 hlutum greiddra atkvæða, ef brýna nauðsyn ber til enda sé tillögu um slíkt getið í fundarboði til formannaráðs. Formannaráð ákveður dagskrá aukaaðalfundar og skal kynna aðildarfélögum dagskrána með minnst þriggja vikna fyrirvara. Ákvæði greinar 3.3. gilda um aukaaðalfund.