Siðareglur

Siðareglur BHM voru samþykktar á aðalfundi 25. maí 2023

1. Gildissvið

Þessar siðareglur eiga við um okkur öll í BHM, félagsfólk í stjórnum, nefndum og starfshópum, trúnaðarmenn, starfsfólk og önnur sem koma fram fyrir hönd BHM eða vinna að málum sem tengjast innri og ytri starfsemi bandalagsins og aðildarfélaga þess. Ákvæði þessara siðareglna eiga við hvort heldur sem fólk tekur laun fyrir störf sín eða ekki. Þessar siðareglur gilda samhliða öðrum reglum sem aðildarfélög kunna að setja sér.

2. BHM

Við störfum saman í bandalagi til að standa vörð um hagsmuni og réttindi félagsfólks aðildarfélaga. Við kynnum okkur og virðum gildandi reglur um starfsemi BHM.

3. Samskipti og gagnkvæm virðing

Við virðum ólíkar skoðanir, ólíka hagsmuni aðildarfélaga og sýnum hvert öðru virðingu. Við komum fram af heiðarleika, heilindum og fagmennsku og tileinkum okkur vinnubrögð sem skapa traust á starfi BHM. Við öflum þekkingar af hlutlægni og veitum áreiðanlegar og aðgengilegar upplýsingar í skýru samhengi. Við gætum þagmælsku um málefni sem við fáum vitneskju um í starfi og trúnaður ríkir um samkvæmt lögum eða eðli máls. Við tökum ekki þátt í einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni eða öðru ofbeldi og bregðumst við ef við verðum vitni að slíkri háttsemi. Við erum meðvituð um að ójöfn valdatengsl geta verið á milli einstaklinga og hópa og við misnotum ekki valdastöðu okkar.

4. Fjármál og hagsmunatengsl

Við förum vel með fjármuni og önnur verðmæti sem okkur er treyst fyrir og notum þau ekki í þágu einkahagsmuna. Við erum vakandi yfir mögulegum hagsmunaárekstrum og tökum ekki þátt í meðferð mála ef aðstæður eru til þess fallnar að draga hlutlægni okkar í efa. Við þiggjum hvorki gjafir né hlunnindi sem rýra trúverðugleika, sjálfstæði eða hlutleysi okkar. Við erum meðvituð um að í BHM starfa margar stjórnir, nefndir og starfshópar og þegar við gegnum trúnaðarstörfum á sameiginlegum vettvangi setjum við sameiginlega hagsmuni ofar hagsmunum aðildarfélaga okkar.

5. Jafnrétti og samfélagsleg ábyrgð

Jafnrétti er leiðarljós í starfi BHM. Við styðjum og eflum menningu sem byggir á jafnrétti, fjölbreytileika, inngildingu og gagnkvæmri virðingu. Við gætum þess að í störfum okkar sé fólki ekki mismunað vegna kyns, kynþáttar, þjóðernisuppruna, tungumáls, fötlunar, starfsgetu, trúar, lífsskoðana, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna, kyntjáningar, stjórnmálaskoðana, stéttar, líkamsgerðar, heilsufars eða annarrar stöðu. Við sýnum gott fordæmi í umgengni við náttúru, umhverfi og samfélag.

6. Miðlun og endurskoðun

Þessar siðareglur skulu teknar til umræðu í framkvæmdastjórn árlega og endurskoðaðar ef ástæða þykir til. Aðalfundur BHM samþykkir siðareglur bandalagsins.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt