Chat with us, powered by LiveChat

Lög Bandalags háskólamanna

Samþykkt á aðalfundi BHM 27. maí 2021

Lög Bandalags háskólamanna (pdf)

I. kafli: HLUTVERK

1.0. Heiti

Bandalag háskólamanna, skammstafað BHM, er heildarsamtök stéttar- og fagfélaga háskólamenntaðra á vinnumarkaði. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

1.1. Hlutverk BHM er að:

 • efla aðildarfélög bandalagsins og starf þeirra í því skyni að stuðla að gagnkvæmum stuðningi og samstöðu um hagsmuni háskólamenntaðra á vinnumarkaði og efla þekkingu þeirra á réttinda- og kjaramálum á vinnumarkaði
 • móta sameiginlega stefnu aðildarfélaga í hagsmunamálum þeirra
 • semja um sameiginleg hagsmuna- og réttindamál félagsmanna aðildarfélaga samkvæmt umboði og vera aðildarfélögum til fulltingis við gerð kjarasamninga og standa vörð um hagsmuni félagsmanna gagnvart stjórnvöldum og löggjafarvaldi
 • vinna reglubundna greiningu á launaþróun á vinnumarkaði til undirbúnings kjaraviðræðna og upplýsa aðildarfélög þar um
 • hafa frumkvæði að umræðu um háskólamenntun og stöðu háskólamenntaðra á vinnumarkaði og gæta hagsmuna háskólamanna alla starfsævina, námsárin meðtalin 
 • eiga samstarf við systursamtök háskólamenntaðra og önnur sambærileg samtök erlendis

II. kafli: AÐILD

2.0. Aðildarskilyrði

Öll hagsmunatengd félög og/eða stéttarfélög háskólamenntaðra, sem uppfylla skilyrði þessara laga, geta átt aðild að BHM.

Meirihluti félagsmanna aðildarfélags skal hafa lokið bakkalár-gráðu eða sambærilegu námi. Heimilt er að víkja frá fyrrgreindu skilyrði ef öll nýliðun í hlutaðeigandi fagstétt uppfyllir nefnd skilyrði. Að jafnaði skal stefnt að því að aðeins eitt félag sömu fagstéttar eigi aðild að BHM.

2.1. Umsókn um aðild

Umsókn um aðild skal berast stjórn BHM minnst þremur mánuðum fyrir aðalfund BHM. Umsókninni skulu fylgja lög viðkomandi félags, upplýsingar um félagatal, menntun félagsmanna og skilyrði fyrir aðild að félaginu.

Umsókn félags um aðild að BHM skal hafa hlotið samþykki aðalfundar þess félags áður en umsóknin er send til BHM.

Stjórn BHM kannar hvort umsóknin uppfyllir skilyrði til aðildar að BHM.

Sé umsóknin fullnægjandi, getur stjórn veitt bráðabirgðaaðild fram að næsta aðalfundi en slík aðild veitir ekki atkvæðis-, kosningarétt né kjörgengi á þeim aðalfundi.

Aðildarumsókn skal lögð fyrir aðalfund og telst aðild fullgild að fengnu samþykki fundarins. 

2.2. Skyldur aðildarfélaga

Aðildarfélög hafa fullt frelsi um sín innri mál, þannig að samrýmist lögum BHM og samþykktum aðalfundar.

Hvert aðildarfélag skal annast þjónustu við félagsmenn sína meðal annars hvað varðar kjara- og réttindamál.

Aðildarfélögum ber skylda til að upplýsa BHM um starfsemi sína reglulega, s.s. um gerð nýrra kjarasamninga og stofnanasamninga. Aðildarfélag skal árlega senda bandalaginu skýrslu stjórnar að loknum aðalfundi félagsins.

III. kafli: AÐALFUNDUR

3.0.  Aðalfundur

Aðalfundur BHM fer með æðsta vald í málefnum bandalagsins.

3.1. Undirbúningur og tímasetning

Aðalfund skal halda fyrir lok maímánaðar ár hvert. Formannaráð undirbýr aðalfund og ákveður dagsetningu hans á fundi í síðasta lagi í febrúarmánuði. Formannaráð ákveður hvaða starfsnefndir starfa á aðalfundi. Stjórn BHM ber ábyrgð á framkvæmd aðalfundar sem er að jafnaði staðfundur. Stjórn BHM getur ákveðið að fundurinn verði rafrænn eða staðfundur og rafrænn. Heimilt er að atkvæðagreiðslur fari fram rafrænt.

3.3. Fulltrúar á aðalfundi

Á aðalfundi á sæti einn fulltrúi fyrir fyrstu fimmtíu félagsmenn hvers aðildarfélags og tveir félagsmenn fyrir fyrsta hundrað félagsmanna. Auk þess skulu aðildarfélög tilnefna einn fulltrúa fyrir hvert byrjað hundrað félagsmanna umfram eitthundrað.

Listi yfir fulltrúa á aðalfundi BHM, staðfestur af viðkomandi félagi, skal hafa borist skrifstofu BHM eigi síðar en fjórum vikum fyrir aðalfund. Hver fulltrúi með kjörbréf hefur eitt atkvæði á aðalfundi og í rafrænni kosningu fyrir aðalfund.

Tala fulltrúa miðast við meðaltalsfjölda félagsmanna mánuðina ágúst, september og október næstliðins árs.

3.4. Boðun aðalfunda

Boðun á aðalfund skal send með rafrænum hætti til aðildarfélaga með minnst þriggja vikna fyrirvara.

3.5. Efni fundarboða

Í fundarboði skal geta dagskrár en auk þess skulu tillögur framboðsnefndar fylgja fundarboðinu. Þá skulu tillögur stjórnar BHM og einstakra aðildarfélaga um breytingar á lögum bandalagsins fylgja fundarboði. Aðrar lagabreytingatillögur verða ekki teknar fyrir.

Öll fundargögn aðalfundar skulu gerð aðgengileg fulltrúum aðildarfélaga BHM eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund.

3.6. Dagskrá aðalfundar

Á dagskrá aðalfundar skulu vera eftirtaldir liðir:

 1. Kosning fundarstjóra og ritara
 2. Skýrsla stjórnar
 3. Reikningar BHM
 4. Starfsáætlun
 5. Ákvörðun árgjalds
 6. Fjárhagsáætlun til kynningar
 7. Lagabreytingar
 8. Tilkynningar um breytingar á skipulagsskrám og reglugerðum sjóða og staðfesting þeirra
 9. Kjör/kosning formanns og varaformanns (sbr. þó rafræn kosning skv. gr. 5.0.1)
 10. Kjör/kosning stjórnarmanna og varamanna í stjórn
 11. Kjör fulltrúa í fastanefndir, framboðsnefnd og stjórnir sjóða
 12. Aðildarumsóknir
 13. Breytingar á stefnu BHM
 14. Önnur mál

Atkvæðagreiðsla skal fara fram um liði 1, 3, 5, 7, 10, 11, 12 og 13. Atkvæðagreiðsla um mál sem lögð eru fram undir öðrum málum fer eftir atvikum hverju sinni.

3.7. Aukaaðalfundur

Formannaráð getur boðað til aukaaðalfundar með a.m.k. 2/3 hlutum greiddra atkvæða, ef brýna nauðsyn ber til enda sé tillögu um slíkt getið í fundarboði til formannaráðs. Formannaráð ákveður dagskrá aukaaðalfundar og skal kynna aðildarfélögum dagskrána með minnst þriggja vikna fyrirvara. Ákvæði greinar 3.3. gilda um aukaaðalfund.

3.8. STEFNUMÓTUNARÞING

Þriðja hvert ár hið minnsta skal haldið stefnumótunarþing eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir aðalfund. Formannaráð ákveður dagskrá stefnumótunarþings og stjórn BHM ber ábyrgð á framkvæmd þess.

Stefnumótunarþing er vettvangur samráðs og stefnumótunar aðildarfélaga bandalagins. Niðurstöður þingsins skulu afgreiddar sem ályktanir og tillögur. Þær skulu teknar til umræðu og afgreiðslu á aðalfundi BHM.

Á stefnumótunarþingi á sæti einn fulltrúi fyrir fyrstu fimmtíu félagsmenn hvers aðildarfélags og tveir fulltrúar fyrir fyrsta hundrað félagsmanna. Auk þess skulu aðildarfélög tilnefna einn fulltrúa fyrir hvert byrjað hundrað félagsmanna umfram eitthundrað.

Listi yfir fulltrúa á stefnumótunarþingi, staðfestur af viðkomandi félagi, skal hafa borist skrifstofu BHM eigi síðar en viku fyrir stefnumótunarþingið.

IV. kafli: FORMANNARÁÐ

4.0. Hlutverk og skipan 

Formannaráð fer með æðsta vald í málefnum BHM á milli aðalfunda. Því ber að huga að stærri og stefnumótandi ákvörðunum til fyllingar daglegri ákvarðanatöku sem er hlutverk stjórnar. Formannaráð veitir stjórn aðhald og veitir henni umboð til daglegs starfs á grundvelli stefnu sem mótuð er á stefnumótunarþingum og samþykkt á aðalfundum.

Í formannaráði eiga sæti formenn allra aðildarfélaga BHM. Stjórn BHM ásamt framkvæmdastjóra BHM situr almenna fundi formannaráðs og hefur málfrelsi og tillögurétt. Ef formaður aðildarfélags á sæti í stjórn BHM skipar hlutaðeigandi félag annan mann úr stjórn þess til setu í formannaráði. Forfallist formaður tekur varaformaður hans sæti eða annar tilnefndur fulltrúi viðkomandi félags. Skipun fulltrúa félags skal vera formleg í eitt ár hið minnsta.

4.1. Atkvæðavægi

Við atkvæðagreiðslu í formannaráði gildir einfaldur meirihluti við hefðbundna afgreiðslu mála.

Sé þess krafist fer fram atkvæðagreiðsla þar sem gildir að mál er samþykkt ef saman fer meirihluti aðildarfélaga og fjöldi félagsmanna þeirra.

4.2. Viðfangsefni

Formannaráð fjallar um öll meiriháttar mál er varða sameiginlega hagsmuni aðildarfélaga eða bandalagsins sem og árlega fjárhagsáætlun og starfsáætlun BHM.

Formannaráð afgreiðir starfsáætlun BHM til kynningar á aðalfundi. Einnig afgreiðir ráðið og samþykkir fjárhagsáætlun BHM að undangengnum tillögum stjórnar BHM. 

4.3. Fundir

Formaður BHM ber ábyrgð á að fundir séu boðaðir í formannaráði og stýrir þeim. Reglulegir fundir ráðsins skulu boðaðir með dagskrá sem að jafnaði skal send út með einnar viku fyrirvara. Formaður skal með hæfilegum fyrirvara óska eftir tillögum frá formönnum aðildarfélaga að dagskrárliðum hvers formannaráðsfundar.

Formannaráð skal á fyrsta fundi sínum eftir aðalfund setja niður fundartíma sína á starfsárinu. Það skal funda fjórum sinnum á ári hið minnsta, þar af einu sinni án þátttöku stjórnar BHM.

Formannaráð fylgir fundarsköpum sem ráðið setur sér og skulu gildandi fundarsköp kynnt á fyrsta fundi formannaráðs eftir aðalfund og endurskoðuð ef þörf er á.

Til aukafunda formannaráðs skal boða ef þriðjungur þeirra sem sæti eiga í formannaráði eða meirihluti stjórnar krefst fundar. Slíkir aukafundir skulu boðaðir öllum fulltrúum í formannaráði með dagskrá og ályktunartillögum ef fyrir liggja.

Fundur formannaráðs telst löglegur ef boðað er til hans með sólarhrings fyrirvara.

V. kafli: STJÓRN

5.0. Skipan stjórnar

Stjórn skipa formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og þrír meðstjórnendur.

Formaður og varaformaður eru kjörnir sérstaklega en stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Ritari, gjaldkeri og meðstjórnendur skulu að jafnaði sitja í stjórnum aðildarfélaga.

5.0.1 Kosning formanns og varaformanns BHM

Kjósa skal annað hvert ár formann til tveggja ára og það ár sem formaður er ekki kosinn skal kjósa varaformann til tveggja ára.

Formaður og varaformaður skulu kosnir í rafrænni kosningu meðal aðalfundarfulltrúa aðildarfélaga BHM. Rafræn atkvæðagreiðsla um kjör formanns og varaformanns skal hefjast tveimur vikum fyrir aðalfund BHM og ljúka tveimur dögum fyrir aðalfund. Ef aðeins einn býður sig fram til embættis formanns og/eða varaformanns skoðast viðkomandi sjálfkjörinn.  

5.0.2 Kosning stjórnarmanna

Kjósa skal tvo stjórnarmenn og einn varamann eitt árið og þrjá stjórnarmenn og einn varamann árið á eftir.

5.1. Kjörgengi

Allir fullgildir félagsmenn aðildarfélaga BHM, sem hlotið hafa skrifleg meðmæli stjórnar aðildarfélags síns, eru kjörgengir til stjórnar. Aðeins einn félagsmaður úr hverju aðildarfélagi getur verið í framboði til stjórnar hverju sinni eða setið í stjórn á hverjum tíma, að formanni   BHM eða frambjóðanda til formanns bandalagsins frátöldum. Formaður BHM skal ekki sitja í stjórn aðildarfélags BHM eða gegna öðrum trúnaðarstörfum fyrir aðildarfélag. Hið sama gildir um varaformann ef hann tekur við embætti formanns. Enginn stjórnarmaður skal sitja lengur í stjórn en 8 ár í senn, fyrri stjórnarstörf formanns í stjórn BHM skulu þó undanskilin.

5.2. Kjörtímabil

Kjörtímabil stjórnar og varamanna er tvö ár.

Ef formaður hættir á fyrra ári kjörtímabils tekur varaformaður sæti hans fram að næsta aðalfundi og skal þá kjósa formann til tveggja ára og varaformann til eins árs.

Ef formaður hættir á síðara ári kjörtímabils tekur varaformaður sæti hans út kjörtímabilið. Skal formannaráð þá kjósa nýjan varaformann úr hópi meðstjórnenda.

Ef varaformaður hættir skal á næsta fundi formannaráðs kjósa nýjan varaformann úr hópi meðstjórnenda og sitji út kjörtímabilið. Varamaður tekur þá fast sæti sem stjórnarmaður skv. grein 5.4 og gegnir því út kjörtímabilið.

5.3. Hlutverk

Stjórn fylgir eftir lögum, samþykktum og stefnu BHM og er í fyrirsvari fyrir bandalagið út á við. Formaður BHM er málsvari bandalagsins. Stjórn tekur ákvarðanir um öll mál er varða daglega starfsemi bandalagsins í samræmi við lög þess og stefnu. Hún gerir formannaráði grein fyrir störfum sínum og ber undir það mikilvæg stefnumótandi mál. Stjórn setur sér starfsreglur/verklagsreglur sem endurskoða skal reglulega og kynna fyrir formannaráði.

Stjórn ræður framkvæmdarstjóra sem annast daglegan rekstur BHM. Stjórn setur formanni BHM og framkvæmdastjóra starfslýsingar og endurskoðar þær reglulega.

5.4. Stjórnarfundir

Formaður boðar stjórnarfundi eigi sjaldnar en hálfsmánaðarlega. Stjórnarfund skal boða ef tveir stjórnarmenn óska og skal hann haldinn innan tveggja virkra daga frá því að ósk þess efnis er sett fram. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund og ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála á stjórnarfundum. Ef atkvæði eru jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum. Forfallist stjórnarmaður á boðaðan stjórnarfund skal í hans stað boða þann varamann sem lengra er kominn á kjörtímabili.

VI. kafli: NEFNDIR

6.0. Fastanefndir

Innan BHM starfa eftirtaldar fastanefndir skipaðar fulltrúum kosnum á aðalfundi, nema annað sé tekið fram. Kjörtímabil fulltrúa og varamanna er tvö ár. Fulltrúar fastanefnda skulu vera fullgildir félagsmenn í aðildarfélagi BHM og enginn skal sitja í sömu nefnd lengur en átta ár samfellt.

Framkvæmdastjóri BHM kallar fastanefndir saman til fyrsta fundar eftir aðalfund þar sem nefndarmenn skipta með sér verkum. Fastanefndir skulu halda fundargerðir.

Stjórn setur fastanefndum erindisbréf sem formannaráð gefur út. Þess skal gætt að skipan í nefndir endurspegli sem best samsetningu BHM.

6.0.1. Framboðsnefnd
Framboðsnefnd er skipuð fimm fulltrúum og tveimur til vara. Kjósa skal tvo fulltrúa og einn varamann eitt árið og þrjá fulltrúa og einn varamann árið á eftir.

Hlutverk framboðsnefndar er að auglýsa eftir frambjóðendum í trúnaðarstörf, skv. lögum þessum, m.a. til formanns, varaformanns, stjórnarmanna BHM, nefndarmanna í fastanefndir auk varamanna. Nefndin skal tryggja að framboð séu í samræmi við lög þessi. Komi ekki fram framboð í öll trúnaðarstörf skal nefndin kalla eftir viðkomandi framboðum að nýju og/eða leita til aðildarfélaga eftir framboðum.

Framboðsnefnd auglýsir eftir frambjóðendum til trúnaðarstarfa í sjóðum BHM að beiðni stjórna sjóðanna.

Framboðsnefnd starfar eftir reglum sem formannaráð setur.

Framboðsnefnd skilar kjörstjórn BHM lista með nöfnum frambjóðenda í kjöri eigi síðar en 4 vikum fyrir aðalfund. Framboðsnefnd skilar listum til stjórna sjóða BHM þegar framboðsfrestur er liðinn.

6.0.2. Kjörstjórn
Kjörstjórn er skipuð þremur fulltrúum og tveimur til vara. Kjósa skal einn fulltrúa og einn varamann árlega. Lögmaður starfandi hjá BHM skal taka sæti í kjörstjórn og vera formaður nefndarinnar.

Hlutverk kjörstjórnar er:

 • Að stýra rafrænni kosningu formanns og varaformanns.
 • Að stýra öðrum kosningum til trúnaðarstarfa hjá BHM, sbr. 2. mgr. 3.6. laga BHM.
 • Að undirbúa og stjórna atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun og kjarasamninga í samræmi við umboð viðkomandi aðildarfélags BHM.
 • Að undirbúa og stjórna öðrum atkvæðagreiðslum sem kveðið er á um í lögum BHM.
 • Að undirbúa og stjórna öðrum atkvæðagreiðslum sem formannaráð BHM felur kjörstjórn sérstaklega.

Kjörstjórn úrskurðar um úrslit í atkvæðagreiðslu, kjörskrárkærur, vafaatkvæði og önnur ágreiningsatriði sem upp kunna að koma í atkvæðagreiðslum sem hún sér um.
Fulltrúar í kjörstjórn skulu víkja sæti við meðferð máls teljist þeir vanhæfir til meðferðar þess.

6.0.3. Kjara- og réttindanefnd
Kjara- og réttindanefnd er skipuð fimm fulltrúum, þar af einum úr stjórn BHM. Kjósa skal tvo aðalmenn og einn varamann árlega. Hagfræðingur BHM situr fundi nefndarinnar og er ritari hennar.

Hlutverk kjara- og réttindanefndar er:

 • Að safna upplýsingum um kjara- og réttindatengd mál fyrir bandalagið og aðildarfélög þess.
 • Að standa fyrir könnunum og greiningum á málefnum er varða kjara- og réttindatengd mál í stefnu bandalagsins.
 • Að koma upplýsingum um kjara- og réttindatengd mál á framfæri við bandalagið og aðildarfélög þess.
 • Að vera bandalaginu og aðildarfélögum þess til ráðgjafar vegna kjara- og réttindatengdra mála.
 • Að fylgjast með þróun mála á vinnumarkaði og í vinnurétti.
 • Að hafa eftir atvikum frumkvæði að skoðun og eftirfylgni mála á vettvangi kjarasamninga og vinnumarkaðar.
 • Að halda opna fundi og kjararáðstefnur.

Nefndin skal skila starfsáætlun til stjórnar BHM í september ár hvert.

6.0.4. Jafnréttisnefnd
Jafnréttisnefnd er skipuð fimm fulltrúum, þar af einum úr stjórn BHM. Kjósa skal tvo aðalmenn og einn varamann árlega.

Sérfræðingur BHM situr fundi nefndarinnar og er ritari hennar. 

Hlutverk jafnréttisnefndar er:

 • Að fjalla um jafnréttismál, meðal annars á grundvelli laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og laga er banna mismunun hvers konar.
 • Að vera bakhjarl fulltrúa BHM í nefndum og ráðum er snúa að jafnréttismálum, launajafnrétti á vinnumarkaði og öðrum tengdum sviðum.
 • Að fjalla um þátttöku BHM að sameiginlegum viðburðum um jafnréttismál á vettvangi samtaka launafólks. Má þar nefna Alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars og Kvennadegi Sameinuðu þjóðanna 24. október ár hvert.
 • Að fylgjast með störfum stjórnvalda og vinnuveitenda á sviði jafnréttismála og leggja drög að afstöðu BHM til þeirra.
 • Að vera stjórn og formannaráði BHM ráðgefandi, t.d. hvað varðar tillögur og ályktanir vegna lagafrumvarpa er varða jafnréttismál á breiðum grunni.

Nefndin skal skila starfsáætlun til stjórnar BHM í september ár hvert.

6.0.5. Lagabreytinganefnd
Lagabreytinganefnd er skipuð fimm fulltrúum, þar af einum úr stjórn BHM. Kjósa skal tvo aðalmenn og einn varamann árlega. Lögmaður BHM situr fundi nefndarinnar og er ritari hennar. 

Hlutverk lagabreytinganefndar er:

 • Að kalla eftir tillögum aðildarfélaga til lagabreytinga, meta tillögur og draga saman niðurstöðu til frekari vinnslu ef við á.
 • Að fara yfir lög BHM og gera tillögur að breytingum ef tilefni er til.

Nefndin skal skila niðurstöðum sínum og tillögum til stjórnar BHM eigi síðar en sex vikum fyrir aðalfund.

6.1. Starfsemi

Formenn fastanefnda kalla nefndir saman, stjórna fundum og skila skýrslu um störf nefndarinnar til stjórnar í það minnsta einu sinni á ári í tengslum við aðalfund.

Auk kjörinna nefndarmanna sitja nefndarfundi formaður BHM sem og þeir starfsmenn bandalagsins sem koma að málum hverju sinni.

6.2. Opnir fundir

Opnir fundir fastanefnda, utan kjörstjórnar og framboðsnefndar, sem fulltrúar allra aðildarfélaga BHM mega sækja, skulu haldnir reglulega eða eigi sjaldnar en árlega. Markmið slíkra opinna funda er að gefa öllum félögum kost á að láta úrlausnarefni nefndarinnar til sín taka og koma sjónarmiðum á framfæri við nefndarmenn.

6.3. Sérskipaðar nefndir

Stjórn er heimilt að skipa tímabundið nefndir um einstök málefni eða málaflokka. Stjórn gefur út skipunarbréf til fulltrúa í slíkum nefndum, þar sem meðal annars koma fram starfsskyldur, skipunartími og umboð til nefndarstarfa.

VII. kafli: TILNEFNINGAR SAMKVÆMT LANDSLÖGUM EÐA REGLUGERÐUM

7.0. Tilnefningar

Formannaráð BHM tilnefnir fulltrúa í ráð, stjórnir, sjóði og nefndir sem BHM hefur tilnefningarrétt til samkvæmt landslögum eða reglugerðum. Ef tilnefning er bundin starfi hjá tilteknum vinnuveitanda og nefndarmaður lætur af þeim störfum skal formannaráð tilnefna annan í embættið í  hans stað.

Láti fulltrúi í nefnd af störfum kýs stjórn nýjan í hans stað.

VIII. kafli: FJÁRMÁL

8.0. Aðildargjald 

Öll aðildarfélög greiða aðildargjald til bandalagsins sem aðalfundur ákveður. Aðildargjald reiknast þannig: 

 • Fast árgjald fyrir hvern félagsmann viðkomandi aðildarfélags. 
 • Hlutfall af heildarlaunum hvers félagsmanns viðkomandi aðildarfélags. 

Aðalfundur getur ákveðið að hvert aðildarfélag greiði að lágmarki tiltekna fjárhæð aðildargjalds. Aðalfundur getur ákveðið að veittur skuli afsláttur af föstu árgjaldi aðildarfélags þegar tilteknum fjölda félagsmanna er náð. Ákvörðun um aðildargjald tekur gildi fyrsta dag reikningsárs eftir aðalfund BHM. 

8.1. Gjalddagar 

Aðildargjöld skulu greidd eigi síðar en 15. dag hvers mánaðar

8.2. Kynning og samþykki starfs- og fjárhagsáætlunar

Fyrir síðasta fund formannaráðs á hverju ári skal stjórn kynna drög að starfs- og fjárhagsáætlun og tillögur um breytingar á árgjöldum hafi þær komið fram. Drögin skulu borin upp til samþykktar á fyrsta fundi formannaráðs á nýju ári. Starfs- og fjárhagsáætlun skal kynnt á aðalfundi og tillögur um breytingar á árgjöldum skulu bornar þar upp til samþykktar.

8.3. Reikningsár

Reikningsár er almanaksárið. Endurskoðaðir reikningar skulu lagðir fram til staðfestingar á aðalfundi.

IX. kafli: LAGABREYTINGAR

9.0. Samþykki

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi BHM. Til að lagabreytingartillaga teljist samþykkt þarf hún að hljóta meirihluta greiddra atkvæða. Tillögur stjórnar og aðildarfélaga BHM um lagabreytingar skal leggja fram og kynna á næstsíðasta fundi formannaráðs fyrir aðalfund.

X. kafli: BROTTHVARF FÉLAGS

10.0. Úrsögn

Félag sem hyggur á úrsögn úr BHM skal tilkynna það stjórn bandalagsins skriflega og tekur úrsögn gildi frá og með næstu áramótum. Árgjald skal greiða til BHM út árið. Stjórn BHM skal gefinn kostur á að eiga áheyrnarfulltrúa með málfrelsi á félagsfundum aðildarfélaga þar sem tillaga um úrsögn úr BHM er til afgreiðslu.

10.1. Brottvikning

Aðalfundur BHM getur vikið félagi úr bandalaginu hafi það vísvitandi brotið gegn lögum þessum, stefnu BHM, skaðað bandalagið á einhvern hátt eða liggi fyrir á annan máta að forsendur fyrir aðild þess séu brostnar.

10.2. Réttaráhrif brotthvarfs

Félag sem segir sig úr BHM eða er vikið úr bandalaginu missir öll réttindi í bandalaginu þegar brotthvarf tekur gildi. Fulltrúar þess félags missa og um leið umboð sitt til trúnaðarstarfa í þágu bandalagsins

Félag sem hefur sagt sig úr BHM eða verið vísað úr bandalaginu á ekki fjárkröfu á hendur BHM.

XI. kafli: ÁKVÆÐI TIL BRÁÐABIRGÐA

11.1 Þrátt fyrir ákvæði gr. 5.0.2 og 5.2 um skal á aðalfundi 2022 kjósa einn varamann til eins árs og einn varamann til tveggja ára.

11.2 Þrátt fyrir ákvæði gr. 6.0.1 skal á aðalfundi 2022 kjósa til tveggja ára 3 fulltrúa og einn til vara og til eins árs 2 fulltrúa og einn til vara.

11.3. Þrátt fyrir ákvæði gr. 6.0.2 um kjörstjórn skal á aðalfundi 2022 kjósa til tveggja ára einn fulltrúa og einn til vara og kjósa til eins árs einn fulltrúa og einn til vara.

11.4. þrátt fyrir ákvæði gr. 6.0.3 um kjara- og réttindanefnd skal á aðalfundi 2022 kjósa einn varamann til tveggja ára.

11.5. þrátt fyrir ákvæði gr. 6.0.5 um lagabreytinganefnd skal á aðalfundi 2022 kjósa til tveggja ára tvo fulltrúa og einn til vara og kjósa til eins árs tvo fulltrúa og einn til vara. Fulltrúi stjórnar BHM tekur sæti í nefndinni að loknum aðalfundi 2022.