Stefna BHM

Samþykkt á aukaaðalfundi BHM 1. nóvember 2017

Inngangur

Bandalag háskólamanna (BHM) er heildarsamtök stéttar- og fagfélaga háskólamenntaðs fólks á íslenskum vinnumarkaði. Hlutverk bandalagsins er meðal annars að móta sameiginlega stefnu aðildarfélaga í hagsmunamálum þeirra og standa vörð um hagsmuni félagsmanna gagnvart stjórnvöldum og löggjafarvaldi.

Bandalagið hefur mótað sér stefnu í eftirfarandi málaflokkum sem varða sérstaklega hagsmuni háskólamenntaðra á íslenskum vinnumarkaði.

Launa- og kjaramál

BHM leggur áherslu á að kjör og kjarasamningar háskólamenntaðra endurspegli að menntun þeirra og fagþekking sé metin til launa. Framtak og fjárfesting einstaklinga sem liggur í háskólamenntun og hæfni þeirra á að skila sér í launum og kjörum. Menntun skal metin til launa!

BHM telur brýnt að laun háskólafólks í störfum hjá hinu opinbera séu samkeppnishæf við laun á almennum vinnumarkaði. Íslenskur vinnumarkaður þarf að standast alþjóðlega samkeppni og samanburð við nágrannalönd til að geta laðað að sér vel menntað vinnuafl í störf á öllum sviðum atvinnulífsins. Launaákvarðanir skulu byggja á málefnalegu mati og jafnrétti.

BHM vill eiga árangursríkt samstarf við stjórnvöld og aðra aðila vinnumarkaðarins um stefnumótun í kjara- og réttindamálum. Samstarf aðila vinnumarkaðarins um samræmdar launaupplýsingar er lykilatriði enda er það ein forsenda þess að hægt verði að byggja upp íslenskt samningalíkan að norrænni fyrirmynd. Mikilvægt er að sátt verði milli aðila vinnumarkaðarins um allar meiri háttar breytingar á samningsumhverfinu.

BHM telur mikilvægt að efnahagsástand sé stöðugt og byggi á opinberri langtímastefnu sem mörkuð er í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Öflugt og framsækið atvinnu- og efnahagslíf, með áherslu á menntað vinnuafl, er ein meginforsenda góðra lífskjara og aukins kaupmáttar ráðstöfunartekna.

Lífeyrismál

BHM er sammála því meginmarkmiði að byggt verði upp sjálfbært lífeyriskerfi í landinu með samræmdri réttindaávinnslu fyrir alla landsmenn. Komi til skerðingar á lífeyrisréttindum vegna kerfisbreytinga skal sú skerðing bætt með launahækkunum. BHM leggur áherslu á að val háskólamanna á lífeyrissjóði sé óháð starfsvettvangi þeirra og aðild að lífeyrissjóði sé bundin sjóðfélaga.

BHM krefst þess að ríki og sveitarfélög standi við samkomulag um breytt fyrirkomulag lífeyrismála frá 2016. Mikilvægt er að laun séu sambærileg milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Allir félagsmenn sem voru sjóðfélagar í A-deildum LSR og Brúar fyrir gildistöku breytts fyrirkomulags skulu eiga rétt til lífeyrisauka.

BHM álítur að afnema beri tekjutengingar milli greiðslna úr lífeyris- og almannatryggingakerfinu. Endurskoða þarf örorkubyrði lífeyrissjóðanna. Samtryggingarhluti lífeyrissjóðanna á að vera þriðja stoðin í lífeyriskerfinu, til viðbótar við, en ekki í staðinn fyrir almannatryggingar og viðbótarlífeyrissparnað.

Menntamál

BHM bendir á að háskólamenntun er ein meginforsenda samfélagslegra framfara. Mikilvægt er að jafna aðstöðu fólks og standa vörð um jöfn tækifæri þess til að stunda fjölbreytt háskólanám.Tryggja þarf gæði háskólamenntunar í samræmi við alþjóðleg viðmið.

BHM telur nauðsynlegt að stjórnvöld móti langtímastefnu í menntamálum með virkri þátttöku bandalagsins. Veita þarf auknu fjármagni til háskóla, rannsókna og nýsköpunar svo fjölga megi störfum háskólamenntaðra og efla atvinnulífið. Mikilvægt er að styrkja tengsl háskólamenntunar og vinnumarkaðar.

Málefni stúdenta og Lánasjóðs íslenskra námsmanna

BHM styður hagsmunabaráttu stúdenta og vill eiga gott samstarf við Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) sem og önnur hagsmunasamtök stúdenta.

BHM kallar eftir því að lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna verði endurskoðuð og fullt samráð haft við bandalagið í því ferli. Bandalagið styður blandað kerfi styrkja og lána svo fremi sem jafnrétti til náms og námsvals verði tryggt. Létta þarf greiðslubyrði námslána og afnema ábyrgðarmannakerfi að fullu. Jafnframt leggur BHM áherslu á að bandalagið eigi fulltrúa í stjórn sjóðsins.

Jafnréttismál og fjölskylduvænn vinnustaður

BHM telur að jafnrétti og jafnræði séu sameiginlegur hagur allra. Í því felst meðal annars að allir njóti jafnra möguleika til menntunar, starfs, framgangs í starfi, launa, réttinda, ævitekna og lífeyriskjara.

BHM krefst þess að kynbundnum launamun verði eytt sem og öðrum ómálefnalegum launamun.

BHM leggur áherslu á að íslenskur vinnumarkaður sé fjölskylduvænn og stuðli að jafnvægi milli atvinnu og einkalífs, óháð fjölskylduaðstæðum.

BHM telur mikilvægt að fólki sé auðveldað að samræma fjölskyldulíf og atvinnu með sveigjanleika í starfi. Skapa þarf betra samræmi milli skólastarfs, fjölskyldulífs og atvinnulífs.

BHM bendir á að hóflegur vinnutími er lykilatriði í samspili fjölskyldulífs og vinnumarkaðar. Því er brýnt að stytta vinnuvikuna. Einnig þarf að huga að áhrifum tækniþróunar, svo sem sítengingar starfsmanna, á lengd vinnutíma og álag í starfi.

BHM kallar eftir því að réttur til launa í veikindum verði rýmkaður með tilliti til fjölskylduábyrgðar. Endurskoða þarf lög um fæðingarorlof, meðal annars reglur um fjárhæð greiðslna og tímalengd orlofs.

Vinnumarkaður framtíðar

BHM bendir á að framundan eru verulegar breytingar á starfsumhverfi háskólamenntaðra, ekki síst vegna tækniframfara og viðhorfsbreytinga í samfélaginu.

BHM kallar eftir auknu samstarfi við stjórnvöld, menntastofnanir og atvinnulífið um greiningu á framtíðarþörfum vinnumarkaðarins og áhrifum tækniframfara á störf háskólafólks.

BHM mun fylgjast vel með þróun þessara mála og vera vakandi fyrir þeim tækifærum sem skapast fyrir háskólamenntaða á vinnumarkaði framtíðar.

Stefnur á öðrum sviðum 

Kynningarstefna BHM

Fræðslustefna BHM