Skip to content

Uppsögn; veikindi, orlof og aðrar reglur

Ýmsar reglur er varða veikindarétt launafólks eru sameiginlegar með opinbera og almenna vinnumarkaðinum. Einnig er minnt á rétt launafólks til greiðslna úr sjúkrasjóði og starfsendurhæfingu.

Uppsögn og veikindi

Samkvæmt meginreglu vinnuréttar og kröfuréttar leysir uppsögn ráðningarsamnings starfsmenn og vinnuveitendur, undan skyldum sínum samkvæmt ráðningarsambandi, að loknum uppsagnarfresti og fellur veikindaréttur niður við starfslok hvort heldur starfsmaður segir upp starfi sínu eða honum er sagt upp störfum. Frá þessari meginreglu eru þó vissar undantekningar.

  • Starfsmaður veikist á uppsagnarfresti

Hafi starfsmanni borist uppsögn með venjulegum uppsagnarfresti en veikist eftir það á hann ekki rétt til launagreiðslna lengur en til loka ráðningartímans. Undantekning frá þessu getur verið ef um vinnuslys eða atvinnusjúkdóm er um að ræða.

  • Veikindi áður en uppsögn er tilkynnt

Ef veikindi bera hins vegar að höndum áður en til uppsagnar kemur, heldur starfsmaðurinn veikindarétti sínum þar til hann er vinnufær á ný eða veikindarétturinn er tæmdur. Þetta byggist á því meginsjónarmiði að atvinnurekandanum á ekki að vera mögulegt að skerða veikindaréttindi starfsmanna sinna með uppsögn úr starfi. Það þýðir að ef réttur til veikindaleyfis á launum er lengri en uppsagnarfrestur þá heldur starfsmaður rétti sínum til launa út umsaminn veikindarétt.

Í dómum Hæstaréttar í málum nr. 128/2010 og 121/2013 var því slegið föstu að þó almennt sé heimilt að segja starfsmanni upp þó hann sé í veikindaleyfi og njóti forfallalauna á grundvelli kjarasamnings þá verði réttindum starfsmanna til forfallalauna í veikindum, sem hafa komið til áður en viðkomandi starfsmanni var sagt upp störfum, almennt ekki skertur með uppsögn. Sjá einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 572/2016.

Í dómi héraðsdóms í máli nr. E-2661/2020 voru málsatvik þau að framhaldsskólakennara var sagt upp störfum í apríl 2019. Hún hafði þá verið frá störfum vegna veikinda frá 1. nóvember 2018 eða í rúma fimm mánuði. Vegna starfsaldurs átti hún rétt til launa í veikindaforföllum í allt að 12 mánuði (360 daga) þar sem hún hafði verið í starfi í meira en 18 ár. Henni voru hins vegar einungis greidd laun á uppsagnarfresti fyrir maí, júní og júlí. Hún taldi sig aftur á móti eiga rétt til launa í veikindum fram í nóvember en staðfest var að hún var veik allan þann tíma. Í málinu var m.ö.o. tekist á um það hvort ríkið hafi mátt skerða rétt kennarans til launa í veikindum, sem voru hafin, með uppsögn.

Kennarinn rökstuddi kröfu sína til áframhaldandi greiðslu veikindalauna m.a með því að benda á orðalag ákvæðis í 12. kafla kjarasamninga þar sem segir að laun í veikindum greiðist „þó ekki lengur en ráðningu er ætlað að standa“. Bent var á að ef ætlun samningsaðila hefði verið að rétturinn takmarkaðist við uppsagnarfrest hefði orðalag ákvæðisins verið í samræmi við það. Með öðrum orðum, þá stæði þar að laun í veikindum væru ekki greidd lengur en ráðning stæði. Einnig lagði stefnandi áherslu á að samningsbundinn réttur til launa í veikindum væri lítils virði ef vinnuveitandi gæti komist hjá því að virða þann rétt með því að segja veikum starfsmanni upp störfum.

Héraðsdómur féllst á röksemdir kennarans og dæmdi ríkið til að greiða kennaranum laun til 7. nóvember 2019. Í niðurstöðu dómsins segir m.a.: „Það liggur fyrir að almennt er heimilt að segja starfsmanni upp þó að hann sé í veikindaleyfi og njóti forfallalauna á grundvelli kjarasamnings. Það verður þó ráðið af dómaframkvæmd að réttur starfsmanna til forfallalauna í veikindum, sem hafa komið til áður en viðkomandi er sagt upp störfum, verði almennt ekki skertur með uppsögn.“

Orlof og veikindi

  • Veikindi í orlofi

Veikist starfsmaður í orlofi þannig að hann geti ekki notið orlofs á viðkomandi rétt á uppbótarorlofi jafnlangan tíma og veikindin vöruðu. Við slíkar aðstæður skal starfsmaður á fyrsta degi tilkynna það atvinnurekanda og ávallt færa sönnur á veikindi sín með læknisvottorði, sbr. grein 4.6.3 í kjarasamningi. Séu veikindin ekki tilkynnt strax kann orlofslengingin að falla niður. Á sumum vinnustöðum eru sérstakar reglur um hvert og hvernig tilkynna eigi veikindi, en ef engar slíkar reglur eru til staðar skal tilkynna næsta yfirmanni.

Orlofstaka starfsmanns frestast og hann fær greidd laun í veikindum í samræmi við áunninn veikindarétt. Uppbótarorlof skal eftir því sem kostur er veitt á þeim tíma sem starfsmaður óskar á tímabilinu 2. maí til 15. september, nema sérstaklega standi á.

  • Veikindi áður en orlof hefst

Geti starfsmaður ekki vegna veikinda farið í orlof á þeim tíma sem vinnuveitandi ákveður skal hann sanna forföll sín með læknisvottorði. Getur starfsmaður þá krafist orlofs á öðrum tíma og skal orlofið ákveðið í samráði atvinnurekanda við starfsmanninn en þó eins fljótt og unnt er eftir að veikindunum lýkur, sbr. 6. gr. orlofslaga.

Sjúkra- og styrktarsjóðir

Félagsmenn aðildarfélaga BHM geta sótt um sjúkradagpeninga þegar réttur til launa í veikindum hefur verið fullnýttur eða ef viðkomandi er ekki lengur í ráðningarsambandi. Sjúkrasjóður er starfsræktur fyrir félagsmenn á almennum vinnumarkaði og styrktarsjóður fyrir félagsmenn sem starfa á opinberum vinnumarki. Sjá nánar um styrki og sjóði BHM.

Starfsendurhæfing

Einstaklingar sem búa við skerta starfsorku og fjarveru frá vinnu eiga rétt á ýmis konar aðstoð hins félagslega kerfis, þ.m.t. rétt til aðstoðar við starfsendurhæfingu og til greiðslu endurhæfingarlífeyris, sbr. lög um félagslega aðstoð og reglugerð um framkvæmd endurhæfingarlífeyris.

Tryggingastofnun greiðir endurhæfingarlífeyrir. Heimilt er að ákvarða endurhæfingarlífeyri til allt að 36 mánaða þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Heimilt er að framlengja greiðslutímabil um allt að 24 mánuði eftir að 36 mánaða markinu er náð ef starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku er enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila. Grundvöllur greiðslna er að endurhæfingaráætlun liggi fyrir sem taki mið af heilsufarsvanda umsækjanda.

VIRK starfsendurhæfingarsjóður var stofnsettur árið 2018 um það markmið aðila vinnumarkaðarins að draga markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku, með aukinni virkni, eflingu endurhæfingar og öðrum úrræðum. Hjá BHM starfa VIRK ráðgjafar sem sinna félagsmönnum BHM, KÍ, SSF og öðrum félögum háskólamanna á höfuðborgarsvæðinu. Sjá nánar á virk.is