Skip to content

Veikindi og orlof

Veikindi sem koma upp í orlofi

Veikist starfsmaður í orlofi þannig að hann geti ekki notið orlofs á viðkomandi rétt á uppbótarorlofi jafnlangan tíma og veikindin vöruðu. Við slíkar aðstæður skal starfsmaður á fyrsta degi tilkynna það atvinnurekanda og ávallt færa sönnur á veikindi sín með læknisvottorði, sbr. grein 4.6.3 í kjarasamningi. Séu veikindin ekki tilkynnt strax kann orlofslengingin að falla niður. Á sumum vinnustöðum eru sérstakar reglur um hvert og hvernig tilkynna eigi veikindi, en ef engar slíkar reglur eru til staðar skal tilkynna næsta yfirmanni.

Orlofstaka starfsmanns frestast og hann fær greidd laun í veikindum í samræmi við áunninn veikindarétt. Uppbótarorlof skal eftir því sem kostur er veitt á þeim tíma sem starfsmaður óskar á tímabilinu 2. maí til 15. september, nema sérstaklega standi á.

Veikindi áður en orlof hefst

Geti starfsmaður ekki vegna veikinda farið í orlof á þeim tíma sem vinnuveitandi ákveður skal hann sanna forföll sín með læknisvottorði. Getur starfsmaður þá krafist orlofs á öðrum tíma og skal orlofið ákveðið í samráði atvinnurekanda við starfsmanninn en þó eins fljótt og unnt er eftir að veikindunum lýkur, sbr. 6. gr. orlofslaga.