Starfsendurhæfing

Einstaklingar sem búa við skerta starfsorku vegna heilsubrests eiga rétt á starfsendurhæfingu með endurkomu á vinnumarkað að markmiði.

Starfsendurhæfing

VIRK Starfsendurhæfing veitir þjónustu og ráðgjöf á sviði starfsendurhæfingar.

Á heimasíðu VIRK eru birtar greinargóðar leiðbeiningar um ferill við starfsendurhæfingu.

Þjónusta VIRK er til staðar á öllum helstu þéttbýlisstöðum landsins. Lögð er áhersla á að nýta fagfólk á hverju svæði fyrir sig og þróa úrræði sem henta þeim fjölbreytta hópi sem nýtir sér þjónustu VIRK.

VIRK Starfsendurhæfingarsjóður er sjálfseignarstofnun stofnuð árið 2008 af helstu samtökum stéttarfélaga og atvinnurekenda á vinnumarkaði. Starfsemin er fjármögnuð af atvinnurekendum, lífeyrissjóðum og ríkisvaldinu. Markmið aðila vinnumarkaðarins með stofnun Virk var að draga markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku, með aukinni virkni, eflingu endurhæfingar og öðrum úrræðum.

Endurhæfingarlífeyrir

Tryggingastofnun greiðir endurhæfingarlífeyrir samhliða starfsendurhæfingu.

Endurhæfingaráætlun þarf að liggja fyrir sem tekur mið af heilsufarsvanda umsækjanda.

Endurhæfingaráætlun skal unnin af heilbrigðismenntuðum fagaðila, svo sem lækni, sjúkraþjálfara, félagsráðgjafa, sálfræðingi, iðjuþjálfara eða hjúkrunarfræðingi í samvinnu við umsækjanda um endurhæfingarlífeyri, eða fagaðila sem er viðurkenndur á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar samkvæmt samningum starfsendurhæfingarsjóða.

Tryggingastofnun er heimilt að ákvarða endurhæfingarlífeyri til allt að 36 mánaða þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys.

Framlengja má greiðslutímabil um allt að 24 mánuði eftir að 36 mánaða markinu er náð ef starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku er enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila og Tryggingastofnunar.

Nánari leiðbeiningar eru veittar á heimasíðu Tryggingastofnunar.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt