Chat with us, powered by LiveChat
 • BHM-KRABBAMEINSF+eLAGI+E-05

Veikindi

Fjarvera frá vinnu vegna veikinda

Starfsmenn eiga almennt rétt á launum í veikindum eftir því sem kveðið er á um í  lögum eða samið er um í kjarasamningi. Eftir að rétti til launa í veikindum sleppir hjá vinnuveitenda getur félagsmaður átt rétt á greiðslum frá sjúkrasjóðum BHM og/eða frá almannatryggingakerfi. 

Verði starfsmaður óvinnufær vegna veikinda eða slyss, skal hann þegar tilkynna það yfirmanni sínum sem ákveður hvort læknisvottorðs skuli krafist. Endurgreiða skal starfsmanni gjald vegna læknisvottorða sem krafist er af vinnuveitanda. Krefjast má læknisvottorðs af starfsmanni vegna óvinnufærni hvenær sem þykir þörf á. 

Veikindaréttur er mismunandi eftir því  hvort starfsmaður er opinber starfsmaður eða vinnur á almennum vinnumarkaði:

Veikindaréttur hjá ríki og sveitarfélögum

Ef starfsmaður verður óvinnufær vegna veikinda eða slyss, skal hann þegar tilkynna það yfirmanni sínum sem ákveður hvort læknisvottorðs skuli krafist. 

Starfsmaður sem ráðinn er til starfa á mánaðarlaunum í kjarasamningi í a.m.k. 2 mánuði skal halda launum svo lengi sem veikindadagar hans, taldir í almanaksdögum, verða ekki fleiri á hverjum 12 mánuðum en hér segir:

 Starfstími  Fjöldi daga
 0-3 mánuðir í starfi  14
 Næstu 3 mánuðir
 35
 Eftir 6 mánuði  119
 Eftir 1 ár  133
 Eftir 7 ár  175
 Eftir 12 ár  273
 Eftir 18 ár  360

 • Við útreikning á veikindarétti er horft til fjölda veikindadaga síðustu 12 mánuði og sá fjöldi dreginn frá rétti starfsmanns. Til starfstíma (starfsaldurs) telst samanlagður starfstími hjá stofnunum ríkis, sveitarfélaga og hjá sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé.    

Fjarvera vegna veikinda barna

 • Foreldri hefur heimild til að vera frá vinnu í samtals 12 vinnudaga (96 vinnustundir) á hverju almanaksári vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri.

Launagreiðslur í veikindum

Sé starfsmaður á föstum launum (fastlaunasamningi) fær hann sín föstu laun greidd hvort sem veikindin vara í eina viku eða lengur.

   Í fyrstu viku veikinda og slysaforfalla (?)  Eftir fyrstu viku veikinda- og slysaforfalla
 Mánaðarlaun  X  X
 Fastar greiðslur:    
    Föst yfirvinna  X      X (?)
    Fast vaktaálag  X  X
    Fast gæsluvakta- og
    óþægindaálag
 X  X
    Greiðslur fyrir eyður í
    vinnutíma
 (?)
 X  X
 Meðaltal yfirvinnu síðustu 12 mánaða (?)    X

Launagreiðslur í veikindum miðast við það starfshlutfall sem viðkomandi er í þegar hann veikist: 

 • Hafi starfsmaður verið í 100% starfi í einhver ár og verið kominn í 50% starf þegar hann veikist, miðast launagreiðslur í veikindum við 50% starfshlutfall.
 • Hafi starfsmaður verið í 50% starfi í einhver ár og verið nýlega kominn í 100% starf þegar hann veikist, miðast launagreiðslur í veikindum við 100% starfshlutfall.  

Starfshæfnisvottorð

 • Starfsmaður sem verið hefur óvinnufær vegna veikinda eða slysa samfellt í 1 mánuð eða lengur, má ekki hefja starf að nýju nema læknir votti að heilsa hans leyfi.

Lausnarlaun

 • Þegar opinber starfsmaður verður fyrir langvarandi óvinnufærni vegna veikinda eða slysa getur komið til umræðu að veita honum lausn frá störfum, með vísan til greinar í kjarasamningi þar um. 
 • Þegar starfsmanni er veitt lausn á grundvelli ákvæðisins heldur hann föstum launum sínum í þrjá mánuði eftir að hann honum er veitt lausn frá störfum eða embætti.

Ítarefni: Veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum og lögum

Veikindaréttur á almennum vinnumarkaði

Ef starfsmaður verður óvinnufær vegna veikinda eða slyss, skal hann tilkynna það þegar í upphafi vinnudags. Vinnuveitandi ákveður hvort læknisvottorðs skuli krafist.

Á almennum vinnumarkaði er lágmarksveikindaréttur samkvæmt lögum 2 dagar fyrir hvern unninn mánuð. Veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum aðildarfélaga BHM við SA er viðtækari en kveðið er á um í lögum og er sem hér segir: 

Starfstími hjá sama vinnuveitanda Fjöldi daga
Á 1. ári í starfi 2 dagar fyrir hvern unninn mánuð
Eftir 1 ár 2 mánuðir
Eftir 5 ár 4 mánuðir
Eftir 10 ár 6 mánuðir

Þó skal starfsmaður sem áunnið hefur sér réttindi á grundvelli þessa kjarasamnings til 4 eða 6 mánaða launagreiðslna í veikindaforföllum hjá síðasta vinnuveitanda og skiptir um vinnustað eiga rétt til launagreiðslna um eigi skemmri tíma en í 2 mánuði á hverjum 12 mánuðum. 

 • Veikindaréttur miðast við greidda veikindadaga á 12 mánaða tímabili. Þegar starfsmaður verður óvinnufær er við upphaf veikinda litið til þess hversu margir dagar hafa verið greiddir á síðustu 12 launamánuðum og dragast þeir frá áunnum veikindarétti. Hafi starfsmaður verið launalaus á tímabili telst það tímabil ekki með við útreikning.
 • Veikindi teljast í virkum stundum/dögum eða í væntanlegum stundum/dögum skv. vinnuskipulagi. Laun greiðast þó ekki lengur en ráðningu er ætlað að standa.

Fjarvera vegna veikinda barna

Foreldri hefur heimild til að vera frá vinnu í samtals 12 vinnudaga á hverjum 12 mánuðum vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri. Fyrstu 6 mánuði í starfi er þessi heimild tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð. Með foreldri er einnig átt við fósturforeldri eða forráðamann. 

Forföll af óviðráðanlegum ástæðum

Starfsmaður á rétt á leyfi frá störfum þegar um óviðráðanlegar (force majeure) og brýnar fjölskylduástæður er að ræða vegna sjúkdóms eða slyss sem krefjast tafarlausrar nærveru starfsmanns. Almennt á starfsmaður ekki rétt á launum frá atvinnurekanda í framangreindum tilfellum. 

Ítarefni: Veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum og lögum

Veikindi í orlofi

 • Veikist starfsmaður í orlofi þannig að hann geti ekki notið orlofs á viðkomandi rétt á uppbótarorlofi jafnlangan tíma og veikindin vöruðu. Við slíkar aðstæður skal félagsmaður á fyrsta degi tilkynna það atvinnurekanda og ávallt færa sönnur á veikindi sín með læknisvottorði. 
 • Séu veikindin ekki tilkynnt strax kann orlofslengingin að falla niður. Á sumum vinnustöðum eru sérstakar reglur um hvert og hvernig tilkynna eigi veikindi, en ef engar slíkar reglur eru til staðar skal tilkynna næsta yfirmanni.
 • Orlofstaka starfsmanns frestast og hann fær greidd laun í veikindum í samræmi við áunninn veikindarétt. Uppbótarorlof skal eftir því sem kostur er veitt á þeim tíma sem starfsmaður óskar á tímabilinu 2. maí til 15. september, nema sérstaklega standi á.

Veikindaréttur við uppsögn

Samkvæmt meginreglu vinnuréttar og kröfuréttar leysir uppsögn starfsmenn og vinnuveitendur, undan skyldum sínum samkvæmt ráðningarsambandi, að loknum uppsagnarfresti og fellur veikindaréttur niður við starfslok hvort heldur starfsmaður segir upp starfi sínu eða honum er sagt upp störfum. Frá þessari meginreglu eru þó vissar undantekningar.   

 • Uppsögn áður en starfsmaður veikist: Hafi starfsmanni borist uppsögn með venjulegum uppsagnarfresti en eftir það veikist á hann ekki rétt til launagreiðslna lengur en til loka ráðningartímans. Undantekning frá þessu getur verið ef um vinnuslys eða atvinnusjúkdóm er um að ræða. 
 • Uppsögn eftir að starfsmaður veikist: Hafi hins vegar veikindi borið að höndum áður en til uppsagnar kemur, heldur starfsmaðurinn veikindarétti sínum þar til hann er vinnufær á ný eða veikindarétturinn tæmdur. Þetta byggist á því meginsjónarmiði að atvinnurekandanum á ekki að vera mögulegt að skerða veikindaréttindi starfsmanna sinna með uppsögn úr starfi.